
Það var fyrir rúmum áratug sem hjónin Örn Karlsson og Hellen Gunnarsdóttir keyptu eyðijörðina Sandhól í Skaftárhreppi til að gerast bændur.
„Við seldum hugbúnaðarfyrirtæki og þá varð til smá fé til að fjárfesta og láta gamlan draum rætast,“ segir Örn í fréttum Stöðvar 2.
Á Sandhóli hafa þau reist stærri byggingar en áður hafa sést í Meðallandi; fjós, kornhlöðu og kornþurrkun. Stefnt er á stórfellda nautakjötsframleiðslu og að slátra allt að 250 gripum á ári. Ennfremur stunda þau skógrækt.

„Síðan erum við að rækta bygg og byggið fer að megninu til í bruggverksmiðju sem býr til Flóka-whisky. Síðan erum við að rækta repju sem við setjum á flöskur og í verslanir. Svo eru það hafrar sem líka fara í verslanir.“
Íslensk repjuolía á flöskum, haframjöl og tröllahafrar eru meðal afurðanna. Þá er hafin ræktun á iðnaðarhampi og verið að skoða framleiðslu á haframjólk.

„Það er flutt inn alveg gífurlegt magn af haframjólk til Íslands, aðallega frá Svíþjóð. Þetta væri bara hægt að gera hér.“
Já, á hverju á ári flytja Íslendingar inn yfir milljón lítra af haframjólk sem Örn vinnur að í samstarfi við MATíS að gera að íslenskri framleiðsluvöru.
Fjallað var um Meðalland í þættinum Um land allt. Hér má sjá frétt Stöðvar 2: