Erlent

Pas­hin­y­an kveðst reiðu­búinn að flýta kosningum

Atli Ísleifsson skrifar
Nikol Pashinyan ávarpaði stuðningsmenn sína á Lýðveldistorginu í Jerevan í gær.
Nikol Pashinyan ávarpaði stuðningsmenn sína á Lýðveldistorginu í Jerevan í gær. Getty

Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, hefur beðið þjóð sína fyrirgefningar og kveðst reiðubúinn að flýta þingkosningum í landinu, sé það vilji þingsins. Mikil spenna og óvissa hefur verið í armenskum stjórnmálum síðustu vikur og mánuði eftir átök Armena og Asera vegna héraðsins Nagorno-Karabakh.

Stjórnarandstaðan í Armeníu hefur krafist afsagnar Pashinyan vegna friðarsamkomulags Armena og Asera frá í nóvember sem stór hluti armensku þjóðarinnar leit á sem uppgjöf og ósigur. Talið er að þúsundir hafi fallið í átökunum, en samkvæmt friðarsamkomulaginu létu Armenar stórt landsvæði af hendi.

Deilur við herinn

Pashinyan greindi stuðningsmönnum sínum frá því í gær að hann væri reiðubúinn að mæta örlögum sínum í þingkosningum til að binda enda á þeirri stöðu sem upp er komin í armenskum stjórnmálum, sé það vilji þingsins.

Frá Lýðveldistorginu í Jerevan.AP

Greint var frá því í síðustu viku að háttsettir menn innan armenska hersins hafi krafist þess Pashinyan og ríkisstjórn hans láti af völdum. Sagðist Pashinyan líta á kröfuna sem tilraun til valdaráns og vék hann í kjölfarið Onik Gasparyan, yfirmann hersins, úr embætti. 

Forseti landsins kom þó í veg fyrir að afsögnin næði fram að ganga.

Ávarpaði 20 þúsund manns á Lýðveldistorginu

Pashinyan ávarpaði í gær um 20 þúsund stuðningsmenn sína á Lýðveldistorginu í höfuðborginni Jerevan þar sem hann var að minnast þeirra tíu sem létu lífið í mótmælum árið 2008.

„Látum kosningar skera úr um afsögn hvers þjóðin er að krefjast,“ sagði forsætisráðherrann.

Hann sagðist þó viðurkenna mistök sem hann hafi gert í átökunum við Asera og sömuleiðis í deilu sinni við hershöfðingja landsins.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Armeníu hefur sagst ætla að sniðganga þingkosningarnar, muni Pashinyan sækjast eftir endurkjöri.


Tengdar fréttir

Her­inn kref­ur for­sæt­is­ráð­herr­a Armen­í­u um af­sögn

Forsvarsmenn hers Armeníu hafa krafist þess að Nikol Pashinyan, forsætisráðherra ríkisins, og ríkisstjórn hans láti af völdum. Pashinyan segist líta á kröfuna sem tilraun til valdaráns og hvetur hann stuðningsmenn sína til að mótmæla á götum úti.

Forsætisráðherra Armena úthrópaður sem svikari

Mikil ólga er nú í Armeníu en margir eru afar ósáttir við nýgert vopnahlé í átökunum við Asera vegna Nagorno-Karabakh héraðs. Mótmælendur hafa kallað forsætisráðherrann Nikol Pashinyan svikara sem eigi að segja tafarlaust af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×