Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við fréttamann okkar að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.
Fram hefur komið að Áslaug Arna hringdi tvisvar í Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag vegna Ásmundarsalarmálsins. Áslaug kveðst hafa hringt í Höllu til að spyrja út í verklagsreglur um dagbókarfærslur lögreglu og persónuverndarsjónarmið.
Innt eftir því fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun hvort eðlilegt hefði verið að skrá símtöl við lögreglustjóra sagði Áslaug að ekki hefði verið krafa um slíkt. Hún ætti mörg símtöl „vegna upplýsinga“ og þess væri ekki krafist að hún skráði slík símtöl.
Skoða mætti hvort rétt hefði verið að skrá símtölin eða hafa ráðuneytisstjóra viðstaddan. Þá kvaðst hún oft hringja í lögregluna til að fá ýmiss konar upplýsingar.
Bað Bjarni [Benediktsson fjármálaráðherra] þig um að grennslast fyrir um þessi mál hjá lögreglunni?
„Nei,“ svaraði Áslaug.
Það var algjörlega að þínu frumkvæði?
„Já, ég fékk spurningar frá fjölmiðlum sem ég þurfti að svara og ákvað síðan að svara ekki.“
Hátt í fimmtíu manns voru samankomnir í Ásmundarsal í Reykjavík á Þorláksmessu. Lögregla hafði afskipti af samkomunni og greindi frá því í dagbókarfærslu til fjölmiðla að morgni aðfangadags að „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hefði verið á staðnum. Síðar staðfesti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að hann hefði verið í salnum.