Erlent

Dolly Parton tók snúning á Jo­lene þegar hún var bólu­sett

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dolly Parton er nýorðin 75 ára.
Dolly Parton er nýorðin 75 ára. Getty/Taylor Hill

Bandaríska tónlistarkonan Dolly Parton var í gær bólusett gegn Covid-19 með bóluefni lyfjafyrirtækisins Moderna.

Parton lagði fé til rannsóknarmiðstöðvar Vanderbilt-háskólans í Nashville en miðstöðin lék stórt hlutverk í rannsóknum og þróun bóluefnisins.

Parton gaf eina milljón dollara til rannsóknarmiðstöðvarinnar í fyrra og fór hluti af upphæðinni í fyrsta fasa rannsókna og tilrauna með bóluefnið.

Þegar Parton fékk bólusetninguna í gær nýtti hún tækifærið og hvatti alla til að láta bólusetja sig með því að syngja eitt sitt þekktasta lag, Jolene, í nýrri útgáfu.

„Vaccine, vaccine, vaccine, vaccine, I'm begging of you, please don't hesitate,“ söng Parton sem á íslensku gæti útlagst eitthvað á þessa leið:

„Bóluefni, bóluefni, bóluefni, bóluefni, ég bið þig, ekki hika.“

Parton sagðist hafa beðið um nokkra hríð eftir að geta fengið bólusetningu með bóluefninu sem hún hjálpaði til við að fjármagna.

„Ég er nógu gömul til að fá bólusetningu og ég er nógu klár til að fá bólusetningu,“ sagði Parton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×