Innlent

Einn greinst með suður-afríska afbrigðið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór yfir stöðu mála á upplýsingafundinum í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór yfir stöðu mála á upplýsingafundinum í dag. vísir/vilhelm

Einn hefur greinst með suður-afríska afbrigði SARS-CoV-2 hér landi, það var fyrir fjórum dögum. Um var að ræða smit á landamærunum. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi vegna Covid-19 rétt í þessu.

Þórólfur sagði engin önnur smit hafa greinst út frá þessu smiti en 90 hefðu greinst með breska afbrigðið á landamærunum og tuttugu innanlands. Þeir voru allir í nánum tengslum við einstaklinga sem greindust á landamærunum.

Enginn hefur greinst með svokallað brasilíska afbrigði.

Þórólfur sagði að vel væri fylgst með árangri þess að gera kröfu um svokölluð PCR-próf á landamærunum en frá 19. febrúar hefðu 1.600 einstaklingar framvísað vottorði. Átta þeirra, eða 0,5 prósent, hefðu fengið „falskt neikvætt“ svar, það er framvísað neikvæðu PCR-prófi en greinst með Covid-19 í fyrri eða seinni skimun.

„Þetta segir okkur að neikvætt PCR-próf eða vottorð um það er ekki fullkomið til að halda veirunni frá, þó það sé árangursríkt að krefjast þessa vottorðs, vafalaust,“ sagði Þórólfur. 

Sagði hann að þetta þyrfti að skoða vel.

Sóttvarnalæknir sagði að líklega hefði tekist að uppræta veiruna innanlands og nauðsynlegt væri að standa vörð á landamærunum. Ekki síst þegar útbreiðsla breska afbrigðisins væri að aukast.

Þá sagði hann mikilvægt að fólk gætti áfram að sér þegar náttúruhamfarir vofðu yfir, það væri ekki gott að fá smit ofan í þær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×