Íslenski boltinn

Brynjólfur sagður stinga sér til Kristiansunds fyrir metfé

Sindri Sverrisson skrifar
Brynjólfur Andersen Willumsson er á leið til Noregs ef að líkum lætur.
Brynjólfur Andersen Willumsson er á leið til Noregs ef að líkum lætur. vísir/hulda margrét

Norska úrvalsdeildarfélagið Kristiansund hefur náð samkomulagi við Breiðablik um kaup á knattspyrnumanninum unga Brynjólfi Andersen Willumssyni.

Kaupverðið er sagt metupphæð í sautján ára sögu Kristiansund en félagið á eftir að ganga frá smáatriðum í sambandi við samninginn um kaup og kjör Brynjólfs. Þetta fullyrðir norski miðillinn Nettavisen en einnig var fjallað um málið í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag.

Brynjólfur, sem er tvítugur, skoraði fjögur mörk í 17 leikjum fyrir Breiðablik í Pepsi Max-deildinni á síðustu leiktíð. Hann skoraði eitt mark í átta leikjum með U21-landsliðinu í undankeppni EM og leikur væntanlega með liðinu í lokakeppninni síðar í þessum mánuði.

Aðalmarkaskorarinn fór til Sádi-Arabíu

Kristiansund BK er ungt félag frá samnefndum bæ á vesturströnd Noregs. Það varð til við samruna Kristiansund FK og Clausenengen FK haustið 2003. Liðið lék í fyrsta sinn í efstu deild árið 2017 og hefur fest sig þar vel í sessi.

Kristiansund hafnaði í 5. sæti á síðustu leiktíð en varð svo að horfa á eftir sínum aðalmarkaskorara, Amahl Pellegrino, til Sádi-Arabíu. Hann skoraði 25 mörk á síðustu leiktíð en samkvæmt Nettavisen er Brynjólfur, sem er sókndjarfur miðjumaður eða framherji, meðal annars fenginn til að draga úr skaðanum sem brotthvarf Pellegrino hefur í för með sér.

Keppni í norsku úrvalsdeildinni á að hefjast 5. apríl þegar Kristiansund mætir LIlleström.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×