Ríkissaksóknarar saka McAfee og lífvörð hans Jimmy Gale Watson Jr. um að hafa beitt lygum og blekkingum til að hvetja milljón Twitter-fylgjendur tæknifrumkvöðulsins til að fjárfesta í ónefndum rafeyri. Í kjölfarið hafi tvímenningarnir selt eignir sínar og grætt um tvær milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 258 milljóna króna, á virðishækkuninni.
McAfee var handtekinn á Spáni í október síðastliðnum vegna gruns um skattalagabrot og hafa bandarísk yfirvöld óskað eftir því að hann verði framseldur til Bandaríkjanna. Hann hefur farið huldu höfði frá árinu 2012 þegar McAfee var til rannsóknar í tengslum við dauða nágranna síns í Belís.
Lögreglan gaf síðar út að tæknifrumkvöðulinn væri ekki grunaður í málinu en hann hefur síðan verið á flótta undan bandarískum yfirvöldum vegna ákæra um umfangsmikil skattsvik.
Faldi sig á Dalvík
McAfee vakti landsathygli árið 2019 þegar hann fullyrti að hann hafi haldið sig á Dalvík áður en hann hafi neyðst til að flýja Norðurland þegar upp komst um felustað hans og eiginkonu.
Hvorki hann né Watson Jr. hafa tjáð sig um nýjustu ásakanir bandarískra yfirvalda en lífvörðurinn var handtekinn í Texas á fimmtudag.
Þeim er einnig gert að sök að hafa fengið ellefu milljónir Bandaríkjadala eða um 1,4 milljarða króna frá sprotafyrirtækjum fyrir að auglýsa rafeyrisvörur þeirra en fjárfestar voru ekki upplýstir um greiðslurnar.