Innlent

Ráðu­neytið þurfi að tryggja full­nægjandi kerfi eða fella niður sam­ræmd próf

Sylvía Hall skrifar
Salvör Nordal er umboðsmaður barna.
Salvör Nordal er umboðsmaður barna. Vísir

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir óásættanlegt að samræmd próf séu ítrekað lögð fyrir í prófakerfi sem sé metið „algjörlega ófullnægjandi“ af skipuleggjendum þeirra. Menntamálaráðuneytið þurfi annað hvort að tryggja fullnægjandi prófakerfi eða fella alfarið niður samræmd próf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umboðsmanni barna í kjölfar tæknilegra örðugleika í prófakerfi sem komu upp á morgun, á meðan nemendur í 9. bekk þreyttu samræmt könnunarpróf í íslensku. Fresta þurfti próftöku í kjölfarið.

Tæknileg vandamál komu einnig upp í samræmdu könnunarprófi fyrir þremur árum síðan og tókst mörgum nemendum ekki að ljúka prófinu. Þeir nemendur fengu þó að taka prófið aftur og var því haldið fram að slíkt kæmi ekki fyrir aftur.

„Frestun prófa felur í sér aukið álag fyrir nemendur sem margir hafa undirbúið sig fyrir töku prófanna í lengri tíma og því er nauðsynlegt að menntamálaráðuneytið taki tafarlaust af skarið og annað hvort tryggi fullnægjandi prófakerfi eða felli alfarið niður samræmd próf,“ segir í tilkynningunni.

Forstjóri Menntamálastofnunar sagði kerfið, sem prófin eru tekin í, vera algerlega óviðunandi. Stofnunin hefði ítrekað bent á að nauðsynlegt væri að tryggja betra prófakerfi ef leggja ætti próf fyrir með þessum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×