Kobe, dóttir hans Gianna, og sjö aðrir létust í þyrluslysi í Los Angeles 26. janúar á síðasta ári.
Samkvæmt skýrslu lögreglustjórans á svæðinu tók einn lögreglumaður 25 af þeim hundrað myndum sem voru teknar á slysstað og deildi þeim svo með kollegum sínum. Myndirnar fóru í kjölfarið í dreifingu.
Dómari í málinu úrskurðaði í gær að lögreglumennirnir nytu ekki lengur nafnleyndar og Vanessa gæti bætt þeim við lögsókn sína á hendur lögregluumdæminu. Hún vill fá bætur fyrir gáleysi og innrás í einkalíf hennar.
Kobe og Vanessa voru gift í tæp tuttugu ár og eignuðust fjögur börn saman. Gianna var næstelsta barn þeirra en hún var þrettán ára þegar hún lést.