Erlent

Draga til baka rannsókn á skammtatölvum vegna „mistaka“

Kjartan Kjartansson skrifar
Microsoft virtist komið framarlega í kapphlaupinu um þróun skammtatölva þegar starfsmenn þess birtu grein sem hlaut mikla athygli árið 2018. Þeir hafa nú neyðst til þess að draga greinina til baka vegna mistaka.
Microsoft virtist komið framarlega í kapphlaupinu um þróun skammtatölva þegar starfsmenn þess birtu grein sem hlaut mikla athygli árið 2018. Þeir hafa nú neyðst til þess að draga greinina til baka vegna mistaka. Vísir/EPA

Hópur sérfræðinga á vegum tæknirisans Microsoft hefur dregið til baka umdeilda rannsókn á svonefndum skammtatölvum sem birtist árið 2018. Mistök hafi verið gerð við rannsóknina og biðjast höfundarnir afsökunar á að hafa ekki stundað nægilega vísindaleg vinnubrögð.

Grein sérfræðinganna vakti töluverða athygli á sínum tíma. Þeir héldu því fram að þeir hefðu fundið vísbendingar um öreind sem gæti gert mönnum kleift að þróa háþróaðar tölvur, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Rannsóknin hefur nú verið dregin til baka í vísindaritinu Nature. Vísindamennirnir segja að þeir hafi meðal annars leiðrétt sum gögn að óþörfu og án þess að greina nógu skilmerkilega frá því. Þá hafi graf í grein um rannsóknina verið rangt merkt og þannig gefið misvísandi mynd af niðurstöðunum.

Óháð rannsókn á upphaflegu greininni benti þó ekki til að fræðimennirnir hefðu viljandi gefið ranga mynd af niðurstöðum sínum.

Microsoft segir að þetta skeki þó ekki trú fyrirtækisins á þróun skammtatölva, nýrri gerð tölva með margfalda afkastagetu á við núverandi kynslóð tölva. Fyrirtækið á í harðri samkeppni við önnur stórfyrirtæki eins og Google og IBM í kapphlaupinu um að verða fyrst til að búa til nothæfa skammtatölvu.

Skammtatölvur byggja á framandlegum eiginlegum skammtafræðinnar, undirgrein eðlisfræði sem fjallar um hegðun öreinda. Það er eiginleiki einda til þess að vera í fleiri en einu ástandi á hverjum tíma sem menn dreymir um að beisla.

Minnisein­ing­ar hefðbund­inna tölva nefn­ast bit­ar. Þeir geta tekið gildið núll eða einn. Í skammta­tölv­um hafa bitarn­ir, sem nefn­ast þá skammta­bit­ar, bæði gild­in sam­tím­is. Með aðeins fimm­tíu skammta­bit­um væri hægt að geyma 1.000 millj­ón millj­ón töl­ur sem tölv­an gæti unnið með all­ar á sama tíma. Slík fram­för í reiknigetu tölva þýddi að flókn­ir út­reikn­ing­ar, sem tölv­ur nú­tím­ans þurfa allt frá klukku­stund­um og upp í vik­ur og mánuði að mjatla á, væri hægt að leysa á ör­skots­stundu með skammta­tölv­um.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×