Ivan Aurrecoechea var með 36 stig og 15 fráköst í leiknum og framlag upp á 39 í þessum þriggja stiga sigri.
„Það er annar maður sem hefur einstaka hæfileika í þessari deild og hann heitir Ivan Aurrecoechea og er miðherji Þórs á Akureyri. Þvílíkt tröll sem þessi gæji er og hvað hann er atorkusamur,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Domino´s Körfuboltakvölds.
„Við höfum verið að dásama hann hérna í vetur enda skilar hann alltaf frábærum tölum. Hann er rosalegur frákastari og frábær varnarmaður. Krafturinn og allt sem hann kemur með í alla leiki. Ég er rosalega hrifinn af þessum leikmanni, hvernig hann spilar og hvað hann er búinn að gera fyrir Þórsliðið,“ sagði Hermann Hauksson, sérfræðingur í Domino´s Körfuboltakvöldi.

Grindvíkingurinn Kazembe Abif átti eiginlega ekki möguleika í baráttunni við Spánverjann í þessum leik.
„Það eru ósköp fáir sem eiga möguleika í hann. Það er sama hver það er sem lendir í honum og það vildu öll lið hafa þennan mann í sínu liði,“ sagði Sævar Sævarsson, sérfræðingur í Domino´s Körfuboltakvöldi.
Ivan Aurrecoechea hefur náð átta sóknarfráköstum í átta leikjum í vetur og þetta var sjötti leikur hans með fjórtán fráköst eða fleiri.
Það má sjá umfjöllunina um Ivan Aurrecoechea sem og svipmyndir frá tilþrifum hans í Grindavíkurleiknum í myndbandinu hér fyrir neðan.

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.