Innlent

Óvæntur norðanhvellur eftir góða tíð

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Það var ekki blíðskaparveður í Mosfellsdalnum í morgun.
Það var ekki blíðskaparveður í Mosfellsdalnum í morgun. vísir/Vilhelm

Vonskuveður er víða um vestanvert landið í dag og er gul viðvörun í gangi á Faxaflóasvæðinu, við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Ströndum og á Norðurlandi- Vestra. Þrjár bílveltur urðu á Reykjanesbraut í morgun þar sem mikið hvassviðri er og lokað var fyrir umferð um Vesturlandsveg á Kjalarnesi vegna veðurs.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að um sá að ræða norðanhvell sem hafi komið nokkuð óvænt eftir góða tíð að undanförnu.

„Það er vaxandi vindur um allt norðvestanvert landið, sérstaklega vestantil á Norðurlandi, Vestfjörðum og suður í Dali og í Borgarfjörð,“ segir Einar. Hann segir að hinsvegar skáni veðrið fljótlega austantil á landinu eftir snjókomuna í nótt.

„Það sem er áberandi í þessu er hvað ofanhríðin er mikil og hvað hún er dimm,“ segir Einar. „Það er hætt við því að fleiri vegir verði smám saman ófærir, sérstaklega á Norðurlandi.“

Einar segir að dimmt hafi verið undir Hafnarfjalli í morgun og vindstrengir á Kjalarnesi og segir hann litlar líkur á því að veðrið þar gangi niður að ráði fyrr en í fyrramálið. Þá sé útlit fyrir að veðurhæð á Vestfjörðum nái hámarki í nótt eða í fyrramálið.

Hann segir við viðbúið að flestar leiðir á milli Vestur- og Norðurlands og Vestfjarða teppist fljótlega. „Sumar eru nú þegar orðnar ófærar og sumstaðar snjóar á láglendi og í byggð,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×