Skoðun

Breytt Suðurlandsbraut - hvers vegna sérrými?

Pawel Bartoszek skrifar

Með Borgarlínunni mun Suðurlandsbrautin breytast. Í dag fer langstærsti hluti götunnar undir bíla og bílastæði. Á flestum stöðum eru: þrjár raðir af bílastæðum, tvær akreinar sem þjóna stæðunum og svo 2+2 vegur með reglulegum beygjuakreinum. Þá eru gangstéttir við verslanir syðst í götunni og göngu- og hjólastígar Laugardalsmegin.

Með frumdrögum Borgarlínu er gert ráð að virkir ferðamátar fái meira pláss. Skoðaðar voru nokkrar útfærslur en eftirfarandi þversnið varð fyrir valinu:

Svona umbreytingar kalla á spurningar og verður reynt að svara þeim hér:

Þarf sérrými?

Markmiðið með sérrýmunum er að auka flutningsgetu almenningssamgangna. Suðurlandsbraut er lykilflutningsleið Borgarlínu. Ef við værum bara að fjölga strætóleiðum á Suðurlandsbrautinni án þess að bæta flæði almenningssamgangna þeirra myndi það ekki skila sér í hraðari ferðatíma og ekki skila sér í fleiri farþegum. En með þessu móti fáum við 5 km sérrými frá Ártúnshöfð niður á Hlemm. Það verður alger bylting.

Þurfa sérrýmin að vera í miðjunni?

Með því að hafa sérrýmin í miðjunni tefst Borgarlínann minnst af annarri umferð. Þannig verður Borgarlínan betri kostur í samkeppni við aðra ferðamáta, því notendur verða fljótari á leiðarenda en ella. Með því að hafa sérrýmin í miðjunni tefst önnur umferð líka minnst.

En af hverju er verið að taka burt aðrar akreinar?

Út frá BRT-staðlinum er ekki krafa um að fækka akreinum, aðallega að sérrýmin séu til staðar. Nokkrar ástæður eru fyrir því að valin er þessi leið á Suðurlandsbrautinni. Í fyrsta lagi þyrfti annars að leggja veg inn í Laugardal. Umdeilanlegt er að það sé það besta nýting á landi. Í öðru lagi þá bætir það flæði gangandi vegfarenda yfir Suðurlandsbrautina og inn á Borgarlínustöðvarnar. Gatan verður meiri borgargata og minni hraðbraut.

Eykur þetta ekki umferð á nálægum götum?

Umferðarspár sýna að umferð í Reykjavík mun halda áfram að aukast. Ef ekkert verður að gert mun umferð á Suðurlandsbrautinni og í nálægum götum aukast. Nokkrar útfærslur voru skoðaðar. Umferðarlíkanið sýnir að útfærslan sem var valin heldur aftur að vexti umferðar í hverfinu. Með óbreyttu fyrirkomulagi verður umferðin á Reykjavegi 15.400 þúsund bílar á sólarhring eftir 4 ár en 11.300 með Borgarlínu og fækkun akreina.

Þarf sérstakan hjólastíg sunnan meginn?

Góðar hjólatengingar eru hluti af BRT-staðlinum. Umhverfið sunnan Suðurlandsbrautar er í dag töluvert bílmiðað. Mikið er af bílastæðum, bæði í einkaeigu og á borgarlandi. Þau þjóna auðvitað sínum tilgangi en það er sannarlega hægt að bæta borgarrýmið á þessum stað með betri og beinni tengingum fyrir gangandi og hjólandi.

Að lokum

Yfir það heila er breytt Suðurlandsbraut hryggjastykki í því samgöngukerfi sem Borgarlínan boðar. Breytingarnar eru margar hverjar róttækar og kalla eðlilega á umræður. Ég fagna þeim frjóu umræðum sem komnar eru um frumdrögin. Ástæða er til að hlakka til framhaldsins.

Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar og varaformaður skipulags- og samgönguráðs.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×