Zaw min Tun, fylkisforingi, sakaði einnig Win Myint forseta og nokkra ráðherra í ríkisstjórninn um spillingu í opinberu starfi. Spillingarásakanir hersins á hendur Suu Kyi eru þær alvarlegustu sem hann hefur sett fram frá því að hann steypti henni og ríkisstjórn landsins af stóli 1. febrúar.
Gullið sem Suu Kyi á að hafa þegið á laun er sagt metið á jafnvirði um 58 milljóna króna. Henni hefur verið haldið á óþekktum stað í um fimm vikur. Hún er sökuð um ýmsa glæpi, þar á meðal ólöglega eign á útvarpsbúnaði.
Mikil mótmæli hafa geisað í Búrma eftir valdaránið og hafa öryggissveitir drepið að minnsta kosti sextíu manns. Í það minnsta sjö hafa verið drepnir í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Herforingjarnir héldu því fram að kosningar þar sem flokkur Suu Kyi vann afgerandi sigur hafi verið sviksamlegar. Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafa ekki stutt þær ásakanir.