Erlent

Segir konungs­fjöl­skylduna alls ekki rasíska fjöl­skyldu

Atli Ísleifsson skrifar
Vilhjálmur prins og Katrín, eiginkona hans.
Vilhjálmur prins og Katrín, eiginkona hans. EPA/Facundo Arrizabalaga

Vilhjálmur Bretaprins segir að breska konungsfjölskyldan sé „alls ekki rasísk fjölskylda“. Prinsinn tjáði sig í fyrsta sinn í morgun um viðtal Opruh Winfrey við brópur sinn, Harry prins, og Meghan.

Í frétt BBC segir að Vilhjálmur hafi tjáð sig stuttlega við fjölmiðla að lokinni heimsókn í skóla í Stratford í austurhluta Lundúna í morgun. Sagðist hann enn ekki hafa rætt við Harry, bróður sinn, um það sem fram kom í viðtalinu en að það stæði til.

Í tilkynningu frá Buckingham-höll á þriðjudag kom fram að sú fullyrðing Meghan að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi lýst yfir áhyggjum af húðlit ófædds sonar þeirra Harry og Meghan, valdi „áhyggjum“ og að málið yrði tekið upp einslega í samtali við þau Harry og Meghan.

Í viðtalinu við Oprah sagði Meghan að Harry hafi verið spurður af ónefndum meðlimi konungsfjölskyldunnar um „hve dökkur“ húðlitur barnsins gæti orðið. Harry prins útskýrði síðar við Opruh að ummælin ættu hvorki við ömmu hans og afa, það er Elísabetu drottningu og Filippus.

Stutt samtal Vilhjálms prins við fjölmiðla í morgun var á þá leið að fréttamaður spurði hann: „Er konungsfjölskyldan rasísk fjölskylda, herra?“. Prinsinn svaraði þá: „Við erum alls ekki rasísk fjölskylda.“ 

Aðspurður svo um hvort hann hafi rætt við Harry, sagði Vilhjálmur: „Nei, ég hef ekki rætt við hann, en ég mun gera það.“


Tengdar fréttir

Drottningin döpur yfir erfiðleikum Meghan og Harrys

Elísabet Englandsdrottning segir alla konungsfjölskylduna dapra eftir að hafa komist að því til fulls í viðtali Opruh Winfrey við Harry og Meghan hversu erfið síðustu ár hafi reynst þeim. Almenningsálitið í Bretlandi virðist vera á sveif Meghan.

Hvorki Elísabet né Filippus ræddu húðlit Archie

Viðtal Opruh Winfrey við Meghan Markle, hertogaynju af Sussex, og Harry Bretaprins hefur verið eitt stærsta fréttamálið í dag beggja vegna Atlantshafsins. Hjónin fóru yfir síðustu ár, allt frá því að Meghan kom inn í konungsfjölskylduna og þar til að þau ákváðu í sameiningu að segja skilið við hana á síðasta ári.

Krísu­fundir hjá konungs­fjöl­skyldunni vegna viðtalsins

Breska konungsfjölskyldan hefur haldið krísufundi í kjölfar viðtals Opruh Winfrey við hertogahjónin af Sussex, þau Meghan Markle og Harry Bretaprins. Viðtalið var frumsýnt á CBS-sjónvarpsstöðinni á sunnudagskvöld en sýnt í Bretlandi í heild sinni í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×