
Lína Birgitta Sigurðardóttir, áhrifavaldur og athafnakona, segir heimsfaraldurinn vissulega hafa haft áhrif á hana og kennt sér margt. Hún krossar nú fingur og segist vona að fólk geti fljótt farið að lifa eðlilegra lífi.

„Covid hefur líklegast haft áhrif á flesta og hef ég sjálf upplifað smá leiða og depurð því ég er svo mikið fiðrildi. Þessi tími hefur þó kennt manni margt, eins og meiri þolinmæði. Annars hefur heimsfaraldurinn þó haft jákvæð áhrif á fyrirtækið mitt, Define the Line því fólk hefur verið að eyða meira í föt og æfingaföt í gegnum netverslanir.“
Lína Birgitta stundar nám í viðskiptafræði með áherslu á markaðsmál og samfélagsmiðla en sjálf hefur hún verið áberandi á samfélagsmiðlum síðustu árin. Kærasti Línu er kírópraktórinn Guðmundur Birkir Pálmarsson, betur þekktur sem Gummi kíró og segir Lína þau vera dugleg að fara á stefnumót og rækta bæði ástina og rómantíkina. Framundan segir Lína vera spennandi tíma og lítur hún björtum augum á framtíðina.
Það er annars margt mjög spennandi framundan hjá mér, vörunýjungar hjá Define The Line Sport og námið mitt. Svo er ég einnig að vinna í mjög spennandi verkefni með tveimur vinkonum mínum, þeim Sólrúnu Diego og Gurrý Jóns en það mun líta dagsins ljós næsta haust.

Hér fyrir neðan svarar Lína Birgitta spurningum í viðtalsliðnum Ást er.
Uppáhalds rómantíska kvikmyndin mín er: Mín uppáhalds þegar ég var yngri var myndin Ps. I love you. Ætli ég haldi mig ekki við hana.
Fyrsti kossinn: Var á skólaballi í níunda bekk. Ég var hálfpartinn að reyna að forða mér frá því að dansa við þennan tiltekna strák en ég gaf svo eftir og viti menn, það endaði með kossi.
Uppáhalds brake-up power ballaðan mín er: Það var og mun líklega alltaf vera “Riding Solo með Jason Derulo. Að blasta því og vera í góðra vina hópi klikkar ekki, haha!
Lagið „okkar“ er: Klárlega Mean It með Lauv. Við erum mikið fyrir lögin hans.
Mér finnst rómantískt stefnumót vera: Allskonar. Mín uppáhalds kvöld eru þegar við erum bæði 100% á staðnum, horfum á góða mynd og það er mikil nánd. Annars finnst mér líka mjög rómó að fara út úr bænum og gista á hóteli.
Uppáhaldsmaturinn minn: Humar!
Fyrsta gjöfin sem ég gaf kærastanum mínum: Ég gaf honum æfingaföt og rakspíra. Gummi fékk fyrstu gjöfina frá mér viku eftir að við byrjuðum að deita því hann átti afmæli. Svo nokkrum dögum eftir það komu jólin og ég gaf honum þá ferð til London þar sem London er uppáhalds staðurinn minn og hann hafði aldrei komið þangað.

Fyrsta gjöfin sem kærastinn minn gaf mér: Fyrsta gjöfin sem Gummi gaf mér var armband. Hann bauð mér í mat og var búinn að setja boxið sem er utan um armbandið ofan á diskinn minn. Mér fannst það alltof sætt.
Ég elska að: Vera með fólkinu mínu, ferðast um heiminn, vera í rólegheitum, syngja í bílnum, hlusta á gott podcast, borða góðan mat, peppa fólk áfram og vera í núinu.
Kærastinn minn er: Bilaðslega góður og einstaklega þolinmóður við mig. Hann er rólegur en samt svo aktívur, duglegur, hæfileikaríkur, hugulsamur og ég get ekki annað en sagt rómantískur. Hann á 100% vinninginn þar.
Rómantískasti staðurinn: Ég upplifði París með Gumma í fyrra á allt öðru stigi svo að París mun vera svarið. Við getum ekki beðið eftir að komast þangað aftur og skapa fleiri minningar.
Ást er: Allskonar. Fyrir mér er hún samt aðallega að taka hvoru öðru eins og við erum og bera virðingu fyrir hvoru öðru. Að elska og vera elskaður, nánd, samverustundir, að getað talað saman og endalaus knús (ég er sjúk í knús).
Fyrir áhugasama er hægt að nálgast Instagram prófíl Línu Birgittu hér.