Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip sem reka ferjuna undir merkjum Sæferða. Þar segir að rannsóknarskipið Árni Friðriksson sé nú á leið til Baldurs auk Þórs, varðskips Landhelgisgæslunnar. Þyrlusveit Gæslunnar var einnig kölluð út og verður í viðbragðsstöðu ef á þarf að halda.
Sæferðir vinna nú að aðgerðum með Landhelgisgæslunni og er ráð fyrir að skipið verði dregið í Stykkishólm. Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að auk varðskipsins og rannsóknarskipsins hafi sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar verið kallaðar út á þriðja tímanum vegna vélarbilunarinnar.
Uppfært klukkan 16:50: Unnið er að því að koma taugum á milli Baldurs og rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar að sögn Gunnlaugs Grettissonar, framkvæmdastjóra Sæferða.

Varðskipið Þór statt í Helguvík
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um bilunina klukkan 14:27 og er gert ráð fyrir því að rannsóknarskipið Árni Friðriksson verði komið að Baldri á fimmta tímanum. Varðskipið Þór er jafnframt á leið á staðinn en skipið var statt í Helguvík þegar útkallið barst.
Baldur varpaði akkerum fljótlega eftir að bilunarinnar varð vart til að hindra rek og halda akkerin vel, af því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
„Vindátt er úr norðaustri og ef rek yrði á skipinu ræki það frá landi og grynningum. Ástandið um borð er tryggt en til að gæta fyllsta öryggis var þyrlusveit Landhelgisgæslunnar einnig kölluð út og verður í viðbragðsstöðu ef á þarf að halda.“
Fréttin hefur verið uppfærð.