Erlent

Fjöldi stjórnar­and­stæðinga hand­tekinn í Rúss­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Þeir sem andæfa stjórn Vladímírs Pútín Rússlandsforseta eiga ekki sjö dagana sæla þessa dagana. Á annað hundruð stjórnarandstæðinga voru handteknir á ráðstefnu í dag.
Þeir sem andæfa stjórn Vladímírs Pútín Rússlandsforseta eiga ekki sjö dagana sæla þessa dagana. Á annað hundruð stjórnarandstæðinga voru handteknir á ráðstefnu í dag. Vísir/EPA

Rússnesk yfirvöld handtóku um 150 manns á ráðstefnu stjórnarandstöðu- og óháðra stjórnmálamanna í Moskvu í dag. Þeir eru sakaðir um að tilheyra „óæskilegum“ samtökum. Á meðal þeirra eru nokkrir leiðtogar stjórnarandstöðunnar í landinu.

Á ráðstefnunni hittust sveitarstjórnarfulltrúar frá öllu Rússlandi, að sögn Andrei Pivovarov, skipuleggjanda hennar og framkvæmdastjóra Opins Rússlands, samtaka rússneskra andófsmanna í Bretlandi.

Lögreglumenn ruddust inn skömmu eftir að ráðstefnan hófst í dag. Handtóku þeir viðstadda og stungu inn í lögreglubíla sem biðu fyrir utan, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Samtökin OVD-Info sem fylgjast með handtökum á aðgerðarsinnum og pólitískum mótmælendum hafa birt lista yfir fleiri en 150 manns sem þau segja að hafa verið handteknir í dag.

Opið Rússland er á meðal fleiri en þrjátíu samtaka sem stjórnvöld í Kreml skilgreina sem óæskileg og bönnuðu með lögum sem voru samþykkt árið 2015.

Stjórnvöld hófu rassíu gegn stjórnarandstæðingum og andófsfólki eftir að þau handtóku Alexei Navalní, einn helsta stjórnarandstöðunnar, þegar hann sneri heim til Rússlands í janúar. Hann hafði dvalið í Þýskalandi um nokkurra mánaða skeið eftir að eitrað var fyrir honum í heimalandinu. Hann sakar Vladímír Pútín forseta um að hafa skipað fyrir um tilræðið. Því hafna rússnesk stjórnvöld.


Tengdar fréttir

Navalní sagður fluttur á óþekktan stað

Lögmenn Alexei Navalní, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans, segja að yfirvöld hafi flutt hann úr fangelsi þar sem honum hefur verið haldið undanfarnar vikur á óþekktan stað. Mögulegt er að Navalní hafi verið fluttur í fanganýlendu þar sem hann á að afplána fangelsisdóm sem hann hlaut.

Rússar hægja á Twitter

Yfirvöld í Rússlandi hafa hægt á Twitter þar í landi vegna deilna ríkisstjórnar Vladímírs Pútíns, forseta, við samfélagsmiðlafyrirtæki. Sérstaklega hefur verið hægt á hraða internetsins þegar kemur að því að hlaða inn myndum og myndböndum á Twitter.

Rússar á Íslandi mótmæltu við sendiráðið

Rússar sem búsettir eru á Íslandi komu saman við rússneska sendiráðið í Reykjavík í dag til að mótmæla brotum gegn mannréttindum og tjáningarfrelsi í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×