Bíllinn festist í lægð við Hnausapoll að Fjallabaki, að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar. Hópurinn var við æfingar á hálendinu en hafði einnig sinnt tveimur útköllum vegna jeppafólks í vanda í nótt.
Félagar úr öðrum björgunarsveitum eru nú á staðnum með tvo aðra snjóbíla og önnur tæki. Freista þeir þess nú að skera rásir í ísinn og draga snjóbílinn upp úr pyttinum. Davíð Már segir að svo virðist sem að bíllinn hafi farið niður um klaka á leysingarvatni. Ljóst sé að einhverjar skemmdir hafi orðið á bílnum en umfang þeirra verði ekki ljóst fyrr en hann verður dreginn upp og fluttur í bæinn.
Óvenjuhlýtt hefur verið hálendinu undanfarið og hláka er því fyrr á ferðinni en vanalega á vorin. Davíð Már hvetur fólk sem er á ferðinni á hálendinu að fara varlega þar sem margar hættur geti leynst þar.
Í hlákunni sé hætta á að krapapyttir myndist í lægðum í landslaginu. Þegar snjór þar bráðnar safnast fyrir vatn og þunnur ís yfir sem gefur sig auðveldlega.