Erlent

Blóðugur dagur í Mjanmar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mótmælendur bera særðan liðsfélaga sinn í skjól.
Mótmælendur bera særðan liðsfélaga sinn í skjól. EPA-EFE/STRINGER

Minnst 21 mótmælandi var drepinn í átökum við öryggissveitir í borginni Yangon í dag eftir að leiðtogi ríkisstjórnarinnar sem herinn steypti af stóli í byrjun febrúar boðaði byltingu.

Öryggissveitir skutu á mótmælendur á færi í Hlaing Tharyar hverfi í Yangon en mótmælendur beittu prikum og kutum í átökunum. Herforingjastjórnin lýsti yfir herlögum eftir að mótmælendur réðust á kínversk fyrirtæki í hverfinu. Mótmælendur trúa því að mjanmarski herinn njóti stuðnings kínverskra yfirvalda.

Öryggissveitir hersins í Mjanmar mættu mótmælendum í átökum í Yangon í dag.EPA-EFE/STRINGER

Auk þeirra sem dóu í Yangon í dag voru fleiri dauðsföll víðar um landið tilkynnt. Samtökin Stuðningur við pólitíska fanga (AAPP) sem fylgist grannt með málum í Mjanmar sagði í dag að minnst 38 hefðu dáið í átökum við öryggissveitir.

Mótmælaalda hefur riðið yfir landið frá 1. febrúar síðastliðnum þegar herinn steypti lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum af stóli. Herforingjastjórnin haft Aung San Suu Kyi, lýðræðislega kjörinn leiðtoga landsins og formann Lýðræðisflokksins (NLD), í haldi síðan.

Margir þingmannanna, sem sátu á lýðræðislega kjörnu þingi, hafa neitað að viðurkenna lögmæti herforingjastjórnarinnar, hafa flúið land og eru nú í felum.

Leiðtogi ríkisstjórnarinnar, Mahn Win Khaing, sem var tilnefndur varaforseti í ríkisstjórninni sem nú er í felum, flutti í dag sitt fyrsta ávarp eftir valdaránið. Þar hvatti hann til byltingar.

„Við munum aldrei gefast upp fyrir óréttlátum her en við munum móta framtíð okkar saman með sameiginlegum kröftum. Okkur verður að takast ætlunarverk okkar,“ sagi Khaing.


Tengdar fréttir

Herinn sakar Suu Kyi um mútuþægni

Herforingjastjórn Búrma sakar Aung San Suu Kyi, sem hún steypti af stóli sem lýðræðislega kjörnum leiðtoga landsins, um að hafa þegið jafnvirði meira en 77 milljóna íslenskra króna og gull í mútur. Engar sannanir hafa þó verið lagðar fram fyrir ásökununum fram að þessu.

Sjálfstæðir fjölmiðlar í Mjanmar sviptir útvarpsleyfinu

Herforingjastjórnin í Mjanmar hefur bannað fimm fjölmiðlafyritækjum í landinu að starfa og er ástæðan sú að fjölmiðlarnir sögðu frá hinum víðtæku mótmælum sem staðið hafa yfir síðan herforingjarnir tóku völdin í Mjanmar á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×