Franski hópurinn er ekki árennilegur en þar eru leikmenn frá félögum á borð við Paris Saint-Germain, AC Milan, Lyon, Sevilla og RB Leipzig.
Meðal leikmanna í franska hópnum má nefna miðjumanninn Houssem Aouar sem var í liði Lyon sem komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili.
Eduardo Camavinga er einnig í hópnum en þessi bráðefnilegi miðjumaður er í lykilhlutverki hjá Rennes og hefur þegar spilað og skorað fyrir franska A-landsliðið. Annar miðjumaður sem flestir kannast við er Matteo Guendouzi sem er í láni hjá Herthu Berlin frá Arsenal.
Vörnin er heldur ekki illa skipuð en þar má meðal annars finna Wesley Fofana hjá Leicester City, Ibrahima Konaté, leikmann Leipzig, og hinn eftirsótta Jules Koundé hjá Sevilla. Meðal markvarða í franska hópnum er Illan Meslier, aðalmarkvörður Leeds United.
Meðal framherja í franska hópnum er svo Odsonne Édouard hjá Celtic sem hefur skorað fimmtán mörk í tíu leikjum fyrir U-21 árs landslið Frakka auk þess að skora grimmt í Skotlandi á undanförnum árum.
Íslenski hópurinn fyrir EM U-21 árs liða verður tilkynntur á fimmtudaginn. Auk Íslands og Frakklands eru Rússland og Danmörk í C-riðli mótsins.
Franska hópinn má sjá hér fyrir neðan.