Til stendur að kveikja á hreyflunum í Mississippi á morgun. Þetta er áttunda tilraunin með hreyflana og verður lít eftir raunverulegu geimskoti. Kveikt verður á hreyflunum fjórum í átta mínútur.
Tilraunaglugginn svokallaði verður opnaður klukkan þrjú að staðartíma, eða klukkan átta annað kvöld, að íslenskum tíma, og verður hann opinn í tvo tíma. Hægt verður að fylgjast með tilrauninni í beinni á Youtuberás NASA.

Heppnist tilraunin verða hreyflarnir svo sendir til Flórída fyrir Artemis 1 geimskotið þegar skjóta á ómönnuðu Orion geimfari til tunglsins. Það á að gerast í nóvember, samkvæmt áætlunum.
Þróun Space Launch System eldflauganna (SLS) sem er að mestu á höndum NASA og Boeing hefur verið mun dýrari en upprunalega stóð til og dregist verulega en fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir fyrsta geimskoti eldflaugarinnar árið 2016.
Gagnrýnendur SLS hafa sagt að eina markmið þróunarvinnunnar sé að skapa störf í kjördæmum tiltekinna þingmanna.
Fregnir hafa borist af því að ríkisstjórn Joes Biden, hafi sett af stað innri endurskoðun á þróun SLS og fýsileika eldflauganna og það hve mikið þær kosta. Samkvæmt frétt Ars Technica er búist við því að hvert geimskot SLS muni kosta rúma tvo milljarða dala, eða rúmir 254 milljarðar króna.
NASA staðfesti að skoðun væri í gangi og sagði að verið væri að leita aðferða til að draga úr kostnaði. Enn væri þó áhersla lögð á SLS eldflaugarnar og Orion geimförin.