Þannig hljóðar svar heilbrigðisráðuneytisins við beiðni Vísis um að fá afrit af svörum Landspítala við fyrirspurn ráðherra um það hvort og hvernig spítalinn sæi fyrir sér að annast rannsóknir á leghálssýnum í tengslum við skimanir fyrir leghálskrabbameinum.
Ráðherra óskaði eftir upplýsingunum 2. mars síðastliðinn og barst svar að kvöldi 15. mars.
RÚV hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum að svar spítalans hafi verið jákvætt. Þetta er í takt við svör spítalans við fyrirspurn frá forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í nóvember síðastliðinum, sem Vísir fjallaði um fyrr í dag.
Þar kom fram að spítalinn gæti séð um HPV rannsóknir og frumusýnarannsóknirnar sömuleiðis, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Var þar meðal annars talað um fjármögnun, samninga um lán á aðstöðu Krabbameinsfélagsins og að nógu margir starfsmenn KÍ væru reiðubúnir til að ráða sig til Landspítalans.
Í því svari kom fram að kostnaður við HPV rannsóknirnar væri um 3.481 krónur á próf en erfitt væri að meta kostnað við frumurannsóknirnar, þar sem forsendur lægju ekki fyrir. Var hann því áætlaður um 5.500 til 6.000 krónur á sýni.
Þá átti eftir að gera ráð fyrir stofnkostnaði.
Þess má geta að samkvæmt heimildum Vísis hefur verið gert ráð fyrir því að kostnaðurinn við HPV rannsóknirnar muni lækka eftir að nýr tækjabúnaður var tekinn í notkun.