Innlent

Ráðast í annað út­boð þannig að Gosa og Drottningu verði skipt út

Atli Ísleifsson skrifar
Svona er áætlað að Bláfjallasvæðið líti út árið 2024 eftir fyrirhugaða uppbyggingu.
Svona er áætlað að Bláfjallasvæðið líti út árið 2024 eftir fyrirhugaða uppbyggingu. Grafík/Stöð 2

Til stendur að hefja innkaupaferli á tveimur nýjum síðalyftum fyrir Bláfjöllum. Síðar verður svo hafinn undirbúningur að kaupum á fleiri lyftum fyrir Bláfjöll og Skálafell, auk þess að snjóframleiðslu verði komið upp.

Frá þessu segir í Morgunblaðinu í morgun, en kostnaður er metinn á 5,2 milljarða og er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki 2026. Auk þess er til umræðu að bæta aðstöðu fyrir gönguskíðafólk á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er haft eftir Páli Björgvini Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SHH), en öll sveitarfélögin, að Kjósarhreppi undanskildum, munu standa að uppbyggingunni.

Blaðið segir að til standi að hefja útboð á EES-svæðinu fyrir fyrsta áfanga, það eru nýjar stólalyftur í Bláfjöllum sem ætlað er að koma í stað lyftunnar Drottningar við Öxlina og Gosa í Suðurgili og er stefnt að því að þær framkvæmdir standi yfir þar fram til ársins 2024.

Árið 2018 voru kynntar áætlanir um uppbyggingu á skíðasvæðinu, en undirbúningur og öflun nauðsynlegra leyfa tafði framganginn. Var þá miðað við að framkvæmdir stæðu yfir frá 2019 til 2024. Síðastliðið sumar var svo ráðist í útboð þar sem þrjú tilboð bárust sem reyndust vel yfir kostnaðaráætlun. Öllum tilboðum var hafnað í nóvember síðastliðinn.

Lítil sem engin uppbygging hefur verið á skíðasvæðunum frá árinu 2004 þegar stólalyftan Kóngurinn var tekin í notkun í Bláfjöllum ef frá er talið töfrateppið sem sett var upp í Bláfjöllum 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×