Fótbolti

EM-hópurinn tilkynntur: Jón Dagur verður fyrirliði í Györ

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslendingar eru á leið á lokamót EM U-21 árs landsliða karla í annað sinn.
Íslendingar eru á leið á lokamót EM U-21 árs landsliða karla í annað sinn. vísir/vilhelm

Davíð Snorri Jónasson kynnti EM-hóp U21-landsliðsins í fótbolta á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag. Fylgst var með fundinum í beinni textalýsingu hér á Vísi.

EM-hópurinn var tilkynntur á heimasíðu UEFA á þriðjudaginn en Davíð Snorri fullyrti þá að hópurinn gæti tekið einhverjum breytingum. Svo varð þó ekki og er hópurinn sá sami og UEFA kynnti.

Um er að ræða fyrsta landsliðshóp Davíðs Snorra sem tók við af Arnari Þór Viðarssyni í vetur, eftir að Arnar var ráðinn þjálfari A-landsliðsins.

Davíð Snorri staðfesti á fundinum að Jón Dagur Þorsteinsson yrði fyrirliði U21-landsliðsins á EM.

Svo gæti farið að einhverjir leikmenn úr U-21 árs landsliðinu verði kallaðir upp í A-landsliðið fyrir leik þess gegn Þýskalandi í undankeppni HM 2022. Sá leikur fer fram næsta fimmtudag, rétt eins og fyrsti leikur U21-landsliðsins á EM.

Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Rússlandi 25. júní. Íslendingar mæta Dönum 28. mars og Frökkum 31. mars. Allir leikir Íslands fara fram í Györ í Ungverjalandi.

Tvö efstu liðin í riðlinum komast áfram í útsláttarkeppnina sem fer fram um mánaðarmótin maí-júní.

Textalýsingu frá fundinum í dag má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×