Leikurinn hefst klukkan 20:15 og verður í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Útsending byrjar klukkan 19:45 þar sem vakin verður athygli á Píeta samtökunum. Domino's Tilþrifin verða svo í opinni dagskrá frá Origo-höllinni eftir leikinn.
Í þættinum fyrir leikinn er meðal annars rætt við Kristínu Ólafsdóttur, formann Píeta samtakanna, handboltaþjálfarann Óskar Bjarna Óskarsson og Jón Arnór. Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr þættinum.
„Það er meira í kringum leikinn og þetta getur búið til einhvers konar stemmningu í kringum hann sem er pínu olía á eldinn og gerir leikinn meiri en hann er,“ sagði Jón Arnór í samtali við Kjartan Atla Kjartansson.
„Þetta mun ekkert riðla okkar einbeitingu eða leikplani heldur fá okkur til að hugsa um eitthvað aðeins annað og skiptir meira máli en körfubolti og blanda þessum tilfinningum saman. Ég er viss um að þetta verður fallegur dagur fyrir vikið,“ sagði Jón Arnór.
Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.