Erlent

Útgöngubann vegna glundroða á Miami-strönd

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn handtóku fjölda manns á Miami-strönd fyrir að virða ekki sóttvarnareglur og útgöngubann um helgina.
Lögreglumenn handtóku fjölda manns á Miami-strönd fyrir að virða ekki sóttvarnareglur og útgöngubann um helgina. AP/Pedro Portal/Miami Herald

Borgaryfirvöld á Miami-strönd í Bandaríkjunum lýstu yfir neyðarástandi og komu á útgöngubanni á kvöldin til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins eftir að þúsundir skemmtanaglaðra ferðamanna í vorfríi söfnuðust saman í borginni um helgina. Lögregla notaði piparúða til að dreifa mannfjöldanum.

Flórída er vinsæll áfangastaður bandarískra framhalds- og háskólanema í vorfríi þeirra í mars og apríl. Þúsundir ferðamanna komu saman í borginni Miami-strönd um helgina. Margir þeirra voru ekki með grímu og fjarlægðarmörk voru virt að vettugi. AP-fréttastofan segir að fleiri en þúsund hafi verið handteknir um helgina.

„Þetta er eins og á rokktónleikum, maður við mann út um allar götur. Ef þú ert á leiðinni hingað til að sleppa fram af þér beislinu, farðu þá eitthvað annað,“ sagði Dan Gelberg, borgarstjóri á Miami-strönd í viðtali við CNN-fréttastöðina.

Til að bregðast við ástandinu kom borgarstjórnin á útgöngubanni frá klukkan 20:00 til 06:00 sem verður í gildi til 12. apríl að minnsta kosti, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Ferðamenn höfðu verið beðnir um að fylgja sóttvarnatilmælum og útgöngubann frá miðnætti var fyrir í gildi í Miami-Dade-sýslu.

„Of margir hafa komið án þess að ætla sér að virða reglurnar og afleiðingin hefur verið glundroði og óregla sem er meiri en við getum umborið,“ sagði borgarstjórinn.

Lögregluyfirvöld í borginni sættu gagnrýni fyrir að senda lögreglumenn í óeirðarbúnaði til þess að dreifa mannfjöldanum með piparkúlum á aðfararnótt sunnudags aðeins nokkrum klukkustundum eftir að tilkynnt var um útgöngubannið.

Flórída hefur verið einn af miðpunktum kórónuveirufaraldursins í Bandaríkjunum. Samkvæmt tölum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) smituðust 4.300 manns að meðaltali á dag í ríkinu í síðustu viku. Þrátt fyrir það lýsti Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, því yfir að Flórída væri „frelsisvin“ hvað varðaði sóttvarnatakmarkanir í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×