Skoðun

Vond saga

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Í kjölfar þess að krónan hrundi og bankarnir féllu fyrir meir en tólf árum var gripið til umfangsmestu gjaldeyrishafta í manna minnum. Þetta var skammtíma neyðarráðstöfun, sem aðeins átti að gilda í nokkra mánuði. Heita má að einhugur hafi ríkt um þau ráð. Nær allir töldu þó að við yrðum að losna við höftin sem fyrst því til lengri tíma hindruðu þau sókn atvinnulífsins og héldu niðri lífskjörum. Eigi að síður tók fullan áratug að vinda ofan af þessum neyðaraðgerðum.

Alþjóðafjármálakreppan 2008 var fyrst og fremst gjaldeyriskreppa á Íslandi. Við höfum því réttilega eins og flestar aðrar þjóðir fest í lög svonefndar þjóðhagsvarúðarreglur. Þær fela í sér ákveðnar heimildir fyrir Seðlabanka til þess að draga úr sveiflum án þess að raska grundvallarreglunni um frjáls viðskipti.

Nú hefur fjármálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp, sem færir Seðlabankanum heimildir til þess að grípa til allra þeirra hafta, sem nauðsynlegt þótti að innleiða í gjaldeyriskreppunni. Þetta er í fyrsta skipti sem Alþingi framselur til embættismanna svo víðtækt vald til þess að hefta frjáls viðskipti.

Að þessu sinni er ekki um að ræða tímabundna ráðstöfun vegna sérstakra aðstæðna. Ríkisstjórnin telur sem sagt að ekki sé unnt að stýra íslensku krónunni nema embættismenn hafi full, ótakmörkuð og varanleg völd til þess að setja atvinnulífið og lífeyrissjóðina í fjötra gjaldeyrishafta.

Ríkisstjórnin segist sjálf vera búin að tryggja sjö þúsund störf fyrir kosningar. Hún segir að gengi krónunnar sé stöðugt. Hún segir að ríkissjóður hafi nægan aðgang að ódýru lánsfé. Hún segir þvert á álit Samtaka atvinnulífsins, að ekki þurfi að hækka skatta eða skera niður. Hún segir að það sé ekki gjaldeyriskreppa. Samt telur hún óhjákvæmilegt að lögfesta heimildir til jafn víðtækra gjaldeyrishafta og eftir hrun.

Í raun er ríkisstjórnin að segja þetta: það er ekki unnt að stýra jafn litlu peningakerfi án þess að við tökum á okkur meiri skerðingar á viðskiptafrelsi en samkeppnislöndin.

Þetta er ekki góð saga. Þetta er vond saga.

Höfundur er formaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×