Innlent

Ellefu nem­endur Laugar­nes­skóla greindust í gær

Atli Ísleifsson skrifar
Ekkert skólastarf fer fram í Laugarnesskóla í dag.
Ekkert skólastarf fer fram í Laugarnesskóla í dag. Vísir/Vilhelm

Ellefu nemendur Laugarnesskóla greindust með kórónuveiruna í gær. Björn Gunnlaugsson aðstoðarskólastjóri segir að „lokatölur“ hafi borist nú um klukkan 11.

Björn segir að um hundrað nemendur og á þriðja tug starfsmanna séu nú komin í sóttkví en að fleiri starfsmenn gætu bæst við í dag.

Greint var frá því í gærkvöldi að öll börn í Laugarnesskóla og Laugalækjarskóla hafi verið send í úrvinnslusóttkví. Starfsmaður við skólann greindist með kórónuveiruna um helgina.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sagði auk þess frá því í gærkvöldi að allur árgangur 6. bekkjar í Laugarnesskóla, sem og 5. flokkur karla í knattspyrnu hjá Þrótti, hafi jafnframt verið sendur í sóttkví. 

Sömuleiðis var þeim boðum komið í morgun til foreldra barna í leikskólanum Laugasól, sem einnig er í Laugarneshverfi, að halda börnunum heima í dag, eigi þau systkini í Laugarnesskóla eða Laugalækjarskóla.

Í uppfærðum tölum á vefnum Covid.is kom fram í morgun að sautján manns hafi greinst með kórónuveiruna innanlands í gær og þar af þrír utan sóttkvíar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×