Skoðun

Dánar­að­stoð: Hug­taka­notkun skiptir máli

Ingrid Kuhlman og Bjarni Jónsson skrifa

Í yfirlýsingu á heimasíðu Læknafélags Íslands gagnrýna starfsmenn líknarráðgjafarteymis Landspítala (LSH) skýrslu heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð sem birt var 4. september sl. Formaður Læknafélags Íslands, Reynir Arngrímsson, tekur undir athugasemdir þeirra og krefst þess að skýrslan verði dregin til baka og innihald hennar leiðrétt.

Við, stjórnarmenn í Lífsvirðingu, félagi um dánaraðstoð, erum sammála líknarráðgjafarteymi LSH um að rangt sé að skilgreina líknarmeðferð sem eina „tegund dánaraðstoðar“ líkt og er gert í ofangreindri skýrslu. Sérfræðingar í líknarmeðferð hérlendis hafa ávallt haldið fram að líknarmeðferð sé ekki veitt í þeim tilgangi að binda endi á líf sjúklinga heldur aðeins til að lina þjáningar. Ef líknarmeðferð væri tegund dánaraðstoðar mætti í raun fullyrða að dánaraðstoð hafi verið framkvæmd um þó nokkurt skeið hér á landi.

Líknarráðgjafarteymi LSH og formanni Læknafélags Íslands láist að gagnrýna að óbein dánaraðstoð skuli einnig vera skilgreind sem tegund dánaraðstoðar. Meðvitað athafnaleysi læknis sem veitir sjúklingi ekki þá meðferð sem gæti lengt líf hans telst að okkar mati ekki til dánaraðstoðar eins og hún er almennt skilgreind.

Við tökum ekki undir með líknarráðgjafarteymi LSH og Læknafélagi Íslands um að draga verði skýrsluna til baka heldur teljum við nægja að leiðrétta hugtakanotkun. Við óttumst að röng hugtakanotkun í skýrslunni verði til þess að hún verði hluti umræðunnar og afvegaleiði hana.

Okkur langar líka að nota tækifærið og andmæla harkalega þriðja áherslulið líknarráðgjafarteymi LSH sem einmitt snýr að hugtakanotkun. Andstæðingar dánaraðstoðar hafa ítrekað gert athugasemdir við orðið „dánaraðstoð“ og gagnrýnt að það sé ekki rétt þýðing á gríska hugtakinu „euthanasia“. Því erum við reyndar sammála enda höfum við í Lífsvirðingu aldrei haldið fram að um sé að ræða beina þýðingu á hugtakinu. Dánaraðstoð er heiti sem við höfum valið að nota sem almennt heiti yfir aðstoð við að deyja. Þess ber að geta að sambærileg hugtök eru notuð í Svíþjóð (dödshjälp), Noregi (dødshjelp) og Danmörku (dødshjælp). Orðið „líknardráp“, sem er notað í skýrslu heilbrigðisráðherra, er svo sannarlega ekki rétt þýðing á orðinu „euthanasia“. Í orðinu fara saman „líkn“, sem hefur frekar jákvæða skírskotun“, og „dráp“, sem er óneitanlega neikvætt hlaðið. Dánaraðstoð hefur unnið sér sess í umræðunni og munum við í Lífsvirðingu hér eftir sem hingað til notast við það hugtak.

Höfundar eru stjórnarmenn í Lífsvirðingu, félagi um dánaraðstoð.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×