Innlent

Læknir og hjúkrunarfræðingur fóru um borð í skipið

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Súrálsskipið kom til Mjóeyrarhafnar á Reyðarfirði á laugardaginn.
Súrálsskipið kom til Mjóeyrarhafnar á Reyðarfirði á laugardaginn. Vísir/Vilhelm

Læknir og hjúkrunarfræðingur fóru um borð í súrálsskipið sem kom til Mjóeyrarhafnar á Reyðarfirði á laugardaginn í dag til að meta líðan og ástand skipverjanna sem þar eru í einangrun, smitaðir af covid-19. Enginn þeirra mun vera alvarlega veikur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti lögreglustjórans á Austurlandi. Alls reyndust tíu skipverjar úr nítján manna áhöfn á súrálsskipinu vera smitaðir af covid-19. 

Tekin voru sýni frá öllum áhafnarmeðlimum en hinir smituðu hafa síðan verið í einangrun um borð en hinir níu í sóttkví.

 „Mánudaginn 22. mars voru sýni tekin að nýju af þeim sem ekki höfðu greinst með smit auk þess sem mótefnamæling var gerð. Allir níumenningarnir reyndust enn án COVID-smits sem bendir til að sóttvarnir um borð séu í samræmi við leiðbeiningar. Enginn þeirra reyndist heldur með mótefni. Staðan því óbreytt að tíu virk smit eru um borð,“ segir í tilkynningunni.

Þá sé vel fylgst með líðan áhafnarinnar og þeim veitt aðhlynning eftir þörfum. Um hádegisbil í dag fóru læknir og hjúkrunarfræðingur um borð til að meta ástand þeirra og líðan. Að því er fram kemur í tilkynningunni er enginn hinna smituðu alvarlega veikur og því ekki ástæða til að flytja neinn þeirra frá borði til frekari aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×