Innlent

Aflýsa öllum flugferðum vegna smits flugmanns

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Smit hefur greinst hjá flugfélaginu Ernir og er þorri starfsfólks flugfélagsins nú í sóttkví.
Smit hefur greinst hjá flugfélaginu Ernir og er þorri starfsfólks flugfélagsins nú í sóttkví. Vísir/Vilhelm

Þorri starfsfólks flugfélagsins Ernis er í sóttkví eftir að kórónuveiru smit „læddist inn fyrir dyrnar“ líkt og það er orðað í stöðuuppfærslu á Facebooksíðu flugfélagsins.

Flugfélagið kveðst hafa viðhaft miklar og góðar sóttvarnir en þó hafi smit greinst. Sökum þessa verður öllum flugferðum aflýst til 30. mars.

Stefnan er sett á að hefja flug að nýju miðvikudaginn 31. mars. Nú er unnið að því að ná sambandi við alla sem áttu bókað flug til upplýsa um stöðuna sem upp er komin.

Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis, segir í samtali við Vísi að flugstjóri hjá félaginu hafi greinst smitaður í gær. Sá hafi mætt á námskeið með öðrum flugmönnum á þriðjudaginn og verið í samneyti við þá. Fyrir vikið séu allir flugmenn komnir í sóttkví.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í hádeginu að smitið sem greindist utan sóttkvíar tengist með einhverjum hætti gosstöðvunum. 

Hörður skilur ekki alveg hvernig það tengist. Nema þá að því leyti að aðrir flugmenn hafi farið í starfsmannaflug saman til að skoða gosstöðvarnar. Síðar hafi komið í ljós að þeir voru útsettir fyrir smiti. Hinn smitaði hafi ekki farið í það flug enda verið veikur heima síðustu tvo daga þar til hann fékk staðfestingu á smiti í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×