Sveinn Aron er í láni hjá danska úrvalsdeildarliðinu OB frá Spezia á Ítalíu. Hann hefur fengið fá tækifæri með OB á tímabilinu og aðeins spilað 102 mínútur í dönsku úrvalsdeildinni.
„Staðan hjá mér hjá OB hefur ekki verið góð. Ég hef ekkert fengið að spila. Það er erfitt að fá að vera ekki með en maður þarf að sýna þolinmæði,“ sagði Sveinn Aron á blaðamannafundi í Györ í Ungverjalandi í dag.
Þar leikur íslenska U-21 árs landsliðið leiki sína á EM. Sveinn Aron skoraði mark Íslands í 4-1 tapi fyrir Rússlandi í gær.
Aðspurður hvort hann teldi sig vera nálægt A-landsliðinu svaraði Sveinn Aron heiðarlega.
„Á þessum tímapunkti er ég ekki að spila nóg til að vera valinn í A-landsliðið. Ég býst ekki við kallinu strax,“ sagði framherjinn.
Sveinn Aron var valinn í fyrsta sinn í A-landsliðið fyrir leik þess gegn Englandi í Þjóðadeildinni síðasta haust en kom ekkert við sögu í honum.
Ísland mætir Danmörku í öðrum leik sínum á EM U-21 árs liða á sunnudaginn. Leikurinn hefst klukkan 13:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.