Ísland tapaði, 4-1, fyrir Rússlandi í fyrsta leik sínum á EM í gær. Sveinn Aron skoraði mark Íslendinga sem áttu erfitt uppdráttar gegn sterku liði Rússa.
Íslendingar héldu Rússum í skefjum framan af leik en rússneska liðið skoraði þrjú mörk á síðasta stundarfjórðungi fyrri hálfleik. Rússar bættu svo einu marki við í upphafi seinni hálfleiks áður en Sveinn Aron minnkaði muninn.
„Mér fannst við vera með stjórn á varnarleiknum fram að fyrsta markinu sem þeir skoruðu. Þeir voru mikið með boltann en við erum vanir því. Ég var ekkert stressaður,“ sagði Sveinn Aron.
Eftir að Íslendingar lentu undir sagði hann að tilfinningin hefði verið svipuð og í leiknum gegn Svíum í undankeppninni. Svíþjóð vann þann leik með fimm mörkum gegn engu.
„Ég fékk svipaða tilfinningu og í leiknum á móti Svíþjóð. Við urðum óþolinmóðir, það kom stress í menn og þá fór allt í vesen á síðustu mínútunum í fyrri hálfleik,“ sagði Sveinn Aron.
Ísland mætir Danmörku í öðrum leik sínum á EM á sunnudaginn. Leikurinn hefst klukkan 13:00 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.