Innlent

Boða hraðari afhendingu bóluefna í Evrópu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íslendingar í þúsundatali hafa verið bólusettir með bóluefnum AstraZeneca, Pfizer/BioNTech og Moderna.
Íslendingar í þúsundatali hafa verið bólusettir með bóluefnum AstraZeneca, Pfizer/BioNTech og Moderna. Vísir/Vilhelm

Búist er við því að framleiðslugeta bóluefnaframleiðenda í Evrópu aukist á næstunni með opnun nýrra framleiðslustaða. Þetta muni skila sér í hraðari afhendingu bóluefna í álfunni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lyfjastofnun Evrópu í dag, sem Lyfjastofnun Íslands og heilbrigðisráðuneytið hafa gert skil í dag.

Fram kemur í tilkynningu Lyfjastofnunar að nýr framleiðslustaður fyrir bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni hafi nú verið samþykktur í Leiden í Hollandi. Þar verði virka efnið í bóluefninu framleitt.

Þá hafi nýr framleiðslustaður bóluefnis Pfizer/BioNTech verið samþykktur í Marburg í Þýskalandi, auk þess sem ný geymsluskilyrði efnisins hafi verið samþykkt. Þetta auðveldi flutning bóluefnisins og dreifingu þess. Með nýju skilyrðunum þarf ekki að flytja bóluefnið við jafn lágt hitastig og áður.

Einnig hefur nýr framleiðslustaður fyrir bóluefni Moderna verið samþykktur í Visp í Sviss. Enn fremur hafi breytingar á framleiðsluferli verið samþykktar sem stuðla muni að aukinni framleiðslugetu.

Ekki kemur fram í tilkynningu Lyfjastofnunar Evrópu, Lyfjastofnunar Íslands eða heilbrigðisráðuneytisins hversu mikil framleiðsluaukning verði vegna breytinganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×