Erlent

Blóðugasti dagurinn eftir valda­ránið í Mjanmar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Dagurinn í dag var einn sá blóðugasti í Mjanmar frá því að herforingjastjórnin rændi völdum.
Dagurinn í dag var einn sá blóðugasti í Mjanmar frá því að herforingjastjórnin rændi völdum. Getty/Stringer/Anadolu Agency

Tugir hafa verið drepnir í átökum öryggissveita og almennings í Mjanmar í dag. Dagurinn er talinn sá mannskæðasti frá því að herinn tók völd þann 1. febrúar síðastliðinn.

Samkvæmt samtökunum Stuðningur við pólitíska fanga (AAPP) hafa 89 farist það sem af er degi, þar á meðal börn. Mjanmarski fréttamiðillinn Myanmar Now, segir hins vegar 114 hafa látist á þessum blóðugasta degi ársins.

„Þeir drepa okkur eins og fugla eða hænur, meira að segja inni á okkar eigin heimilum,“ sagði Thu Ya Zaw, íbúi í Myingyan, í samtali við fréttastofu Reuters í dag.

„Við munum halda áfram að mótmæla þrátt fyrir það.“

Dagurinn í dag er þó enginn venjulegur dagur í Mjanmar en hann er hátíðisdagur hersins. Fólki hafði verið gert að halda sig heima í dag og útgöngubanni komið á. Þrátt fyrir það leituðu mótmælendur, stuðningsmenn lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar landsins, á götur út til þess að mótmæla.

Mótmælin hafa staðið yfir nær allt frá fyrsta degi hertöku herforingjastjórnarinnar. Frá og með deginum í dag hafa meira en fjögur hundruð farist í mótmælum gegn hernum. Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið hafa öll fordæmt ofbeldið.

Herinn steypti lýðræðislega kjörinni stjórn landsins af valdastóli í kjölfar þess að lýðræðisflokkur Aung San Suu Kyi, leiðtoga ríkisstjórnarinnar, vann stórsigur í þingkosningum.

 Suu Kyi hefur verið í haldi hersins frá 1. Febrúar og standa réttarhöld yfir henni nú yfir, þar sem hún hefur meðal annars verið ákærð fyrir að hafa þegið jafnvirði meira en 77 milljóna íslenskra króna og gull í mútur. Þá á hún að hafa brotið lög um náttúruhamfarir og fleira.


Tengdar fréttir

Skutu sjö ára barn til bana í Búrma

Lögreglumenn herforingjastjórnarinnar í Búrma (Mjanmar) eru sagðir hafa skotið sjö ára gamla stúlku til bana við húsleit á heimili hennar í borginni Mandalay. Stúlkan er talin yngsta fórnarlamb blóðugrar herferðar stjórnarinnar gegn öllu andófi í landinu.

Blóðbaðið í „Búrma“ heldur áfram

Minnst fimm mótmælendur hafa verið felldir af öryggissveitum í Mjanmar, eða Búrma, í dag. Mótmælin gegn herstjórninni sem hefur tekið völdin í landinu hafa haldið áfram þrátt fyrir að tugir mótmælenda hafi verið skotnir til bana um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×