Langar raðir mynduðust í höfuðborginni Belgrad en nóg er til af bóluefni í Serbíu þótt ekki vilji allir þiggja. Gagnrýnendur Aleksandar Vucic, hins poppúlíska forseta Serbíu, segja hann reyna að auka áhrif sín í löndum fyrrverandi Júgóslavíu.
Aðrir halda því fram að verið sé að nota bóluefni frá AstraZeneca sem nálgast síðasta neysludag. AP fréttastofan hafði ekki fengið það staðfest. Serbar hafa þegar gefið nágrönnum sínum lítið magn bóluefna.
Tvær af sjö milljónum Serba hafa verið sprautaðar af bóluefni, flestir með hinu kínverska Sinopharm eða Sputnik V frá Rússlandi en aðrir með bóluefni Pfizer eða AstraZeneca.
„Við höfum ekkert bóluefni. Ég kom hingað til að fá bólusetningu. Við erum mjög þakklát því hér fáum við bólusetningu fyrr en í Makedóníu,“ sagði Zivko Trajkovski frá Norður-Makedóníu í samtali við AP.
Zoran Dedic frá Bosníu og Hersegóvínu var öllu pólitískari í sínum svörum.
„Fyrir mér er þetta enn sama landið. Það breytir engu, Makedónía, Bosnía, Serbía, það skiptir ekki máli.“
Vel hefur gengið framan af að bólusetja í Serbíu. Sífellt heyrist þó hærra í þeim sem tala gegn bólusetningum fyrir kórónuveirunni.