Erlent

Sakaðir um að myrða al­menna borgara sem flýja á­tökin

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þúsundir hafa flúið átökin í Venesúela.
Þúsundir hafa flúið átökin í Venesúela. EPA-EFE/MARIO CAICEDO

Flóttamenn í Kólumbíu, sem flúið hafa stríðsátök í Venesúela, hafa sakað stríðandi fylkingar um að hafa misnotað og myrt almenna borgara. Um fjögur þúsund flóttamenn hafa farið yfir landamærin undanfarna viku en á sunnudaginn var hófust átök í La Victoria, stuttu frá landamærunum við Kólumbíu.

Her Venesúela gerði árás síðasta sunnudag á ólöglegar vopnaðar sveitir í bænum La Victoria, sem liggur að landamærum Kólumbíu.

Að sögn yfirvalda í Venesúela er rannsókn þegar hafin á meintum ofbeldisverkum hersins. Hermenn eru meðal annars sakaðir um að hafa myrt almenna borgarar, sem og að hafa rænt og brennt niður heimili þeirra.

„Þeir drepa fólk“

Jose Castillo, sem flúði yfir til Kólumbíu með þungaðri konu sinni og 12 ára gamalli dóttur á föstudag sagði í samtali við fréttastofu Reuters að hermenn hafi brotist inn á heimili þeirra og rænt öllu sem þeir gátu komið höndum á.

„Ég gat ekki verið þarna áfram vegna þess að þeir drepa fólk. Þeir myrtu nágranna okkar og klæddu þá í venesúelsk herklæði til þess að láta þau líta út fyrir að hafa verið meðlimir vígasveita,“ sagði Castillo.

Fram kemur í frétt Reuters að ekki hafi tekist að sannreyna sögu Castillo, eða annarra flóttamanna sem sýndu fréttamönnum myndir af dánu fólki klætt í herklæði með skotvopn við hönd.

Að sögn flóttafólksins er Byltingarher Kólumbíu (FARC) skotspónn Venesúelska hersins. Byltingarherinn neitaði að skrifa undir friðarsamning árið 2016 við kólumbísk yfirvöld og hefur herinn síðan leitað skjóls í nágrannalandinu.

Vladimir Padrino Lopez, varnarmálaráðherra Venesúela sagði á blaðamannafundi að tveir venesúelskir hermenn og sex andstæðingar hafi fallið í átökum. Andstæðingana kallaði hann hryðjuverkamenn. Þá sagði hann að 39 vígamenn hafi verið handteknir.


Tengdar fréttir

Fengu 91 prósent at­kvæða í um­deildum kosningum

Sósíalistaflokkur Nicolas Maduro, forseta Velesúela, og flokkar hliðhollir forsetanum fengu samtals 91 prósent atkvæða í þingkosningunum sem fram fóru í landinu á sunnudag. Stjórnarandstaðan í landinu sniðgekk kosningarnar og hafa bæði Bandaríkin og Evrópusambandið ekki sagst virða niðurstöðu þeirra.

Segja Maduro hafa unnið þing­meiri­hluta í um­deildum kosningum

Kjörstjórn í Venesúela segir að frambjóðendur sem styðja Nicolás Maduro, forseta, hafi fengið 67,6% atkvæða í þingkosningum sem voru haldnar í gær. Stærsta kosningabandalag stjórnarandstöðuflokkanna tók ekki þátt í kosningunum þar sem það taldi brögð í tafli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×