Erlent

Höfuð­paurinn í Wa­tergate-inn­brotinu er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
G. Gordon Liddy árið 1997. Eftir að Liddy var sleppt úr fangelsi starfaði hann meðal annars sem vinsæll þáttastjórnandi í útvarpi.
G. Gordon Liddy árið 1997. Eftir að Liddy var sleppt úr fangelsi starfaði hann meðal annars sem vinsæll þáttastjórnandi í útvarpi. AP

G. Gordon Liddy, sem hefur verið nefndur höfuðpaurinn þegar kom að innbrotinu á skrifstofur Demókrataflokksins á Watergate-hótelinu í Washington árið 1972, er látinn. Hann varð níutíu ára. Watergate-hneykslið átti eftir að leiða til afsagnar Richards Nixon, þáverandi Bandaríkjaforseta árið 1974.

Liddy hafði áður starfað í hernum og alríkislögreglunni FBI, en eftir að hafa mistekist að ná sæti á þingi gekk hann til liðs við starfslið Richards Nixon, þávarandi Bandaríkjaforseta, í byrjun áttunda áratugarins. Starfaði hann þar meðal annars sem ráðgjafi.

Hann er sagður hafa verið hispurslaus í tali á skrifstofu Nixons, meðal annars með því að leggja til að ráða pólitíska andstæðinga af dögum, sprengja skrifstofur vinstrisinnaðra hugveitna og ræna mótmælendum stríðsreksturs Bandaríkjanna. Samstarfsmenn hans í Hvíta húsinu eiga hins vegar að hafa virt ráðleggingar Liddys að vettugi, en samþykktu þó eina tillögu hans, það er að brjótast inn á skrifstofur Demókrataflokksins.

G. Gordon Liddy árið 1973.AP

Dómstóll dæmdi Liddy í fangelsi fyrir Watergate-innbrotið og fyrir að hafa staðið að ólöglegum hljóðupptökum. Var talið að hópur tengdur Nixon hafi með innbrotinu viljað afla upplýsinga um Demókrataflokkinn og frambjóðenda hans fyrir forsetakosningarnar 1972. Hneykslið átti síðar eftir að leiða til afsagnar Nixons forseta árið 1974.

Liddy afplánaði rúmlega fjögur ár í fangelsi og þar af rúmlega hundrað daga í einangrun. „Ég myndi gera þetta aftur fyrir minn forseta,“ á Liddy að hafa sagt síðar meir að sögn AP.

Eftir að Liddy var sleppt úr fangelsi starfaði hann meðal annars sem vinsæll þáttastjórnandi í útvarpi. Þá birtist hann einnig í fjölda sjónvarpsþátta, þar á meðal Miami Vice og MacGyver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×