Myndband Fraziers vakti gríðarlega athygli þegar hún birti það á samfélagsmiðlum. Myndbandið fór víða og vakti ofbeldi Chauvins mikla reiði í Bandaríkjunum. Tugir milljóna mótmæltu á götum úti undir merkjum Black Lives Matter.
Í gær bar Frazier vitni í réttarhöldunum gegn Chauvin sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi, manndráp og manndráp án ásetning. Hann neitar sök í málinu en á yfir höfði sér allt að fjörutíu ára fangelsi verði hann sakfelldur.
„Þetta snýst um það sem hann hefði átt að gera“
Frazier lýsti samviskubiti sínu yfir því að hafa ekki gert meira og reynt að bjarga lífi Floyds.
„Ég hef beðið George Floyd ítrekað afsökunar á því að hafa ekki gert meira,“ sagði Frazier en bætti svo við að þetta snerist samt ekki um hvað hún hefði átt að gera.
„Þetta snýst um það sem hann hefði átt að gera,“ sagði hún og átti þar við Chauvin.
Frazier kvaðst hafa byrjað að taka upp myndband vegna þess að Floyd hafi litið út fyrir að vera „dauðhræddur, grátbiðjandi um að lífi hans yrði þyrmt“.
Hún hafi verið svo skelfingu lostin vegna þess sem hún sá að hún sagði litlu frænku sinni að fara inn í verslun nálægt vettvangnum svo hún myndi ekki sjá það sem væri að gerast.
Þrýsti fastar niður
Ákæruvaldið kallaði Frazier til sem vitni í málinu. Að því er segir í umfjöllun Guardian á vitnisburður Frazier að undirstrika þann málatilbúnað ákærenda að Chauvin hafi af illgirni haldið hné sínu á hálsi Floyds, jafnvel þegar ljóst var að sá síðarnefndi var ekki að streitast á móti handtöku og var í stöðugt meiri hættu vegna gjörða Chauvins.
Fraizer sagði að Chauvin hefði ekki sleppt takinu á Floyd þrátt fyrir beiðnir frá fólki í kring. Hún sagði lögregluþjóninn hafa verið kaldan á svip, líkt og honum stæði á sama. Á einum tímapunkti hafi hann meira að segja sett meiri þrýsting á háls Floyds.
Réttarhöldin halda áfram í dag en nánar má lesa um þau á vef Guardian, BBC og New York Times.