Erlent

Pútín gæti verið for­seti til 2036

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, gæti setið sem forseti landsins þar til hann er 83 ára gamall. 
Vladímír Pútín, forseti Rússlands, gæti setið sem forseti landsins þar til hann er 83 ára gamall.  EPA/Alexei Druzhinin

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, staðfesti í dag lög sem formlega heimila honum að halda forsetaembætti til ársins 2036. Haldi Pútín völdum út tímabilið verður hann sá leiðtogi Rússlands sem mun hafa verið lengst við völd frá valdatíð Péturs mikla.

Rússar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra að ákvæði um valdatíð forseta yrði breytt í stjórnarskránni. Samkvæmt fyrri stjórnarskrá hefði Pútín þurft að láta af völdum árið 2024, þegar kjörtímabilið klárast, en hann hefur setið sem forseti í fjögur kjörtímabil, tvö þeirra nú í röð.

Með nýju stjórnarskrárákvæði má Pútín bjóða sig fram til tveggja sex ára kjörtímabila í viðbót. Ef hann fengi kjör í bæði skiptin myndi hann sitja sem forseti til ársins 2036. Hann yrði þá sá leiðtogi Rússlands sem setið hefur lengst á valdastóli – lengur en Jósef Stalín – síðan valdatíð Péturs mikla lauk árið 1725.

Dmitry Medvedev, sem var forseti Rússlands á árunum 2008-2012, gæti einnig boðið sig fram til forseta tvisvar í viðbót. Medvedev tók við forsetaembættinu af Pútín þegar hann mátti ekki sitja lengur á forsetastóli samkvæmt stjórnarskrá. Pútín var hins vegar forsætisráðherra á þeim tíma.

Stjórnarskrárbreytingin hefur verið harðlega gagnrýnd og segja gagnrýnendur ástæðu breytinganna þá að Pútín vilji sitja sem forseti til dauðadags. Pútín er í dag 68 ára gamall og hljóti hann kjör tvisvar til viðbótar verður hann 83 þegar forsetatíð hans lýkur. Hann hefur hins vegar sagt að hann hafi ekki ákveðið hvort hann ætli að bjóða sig fram til forseta aftur, enda sé árið 2024 langt í burtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×