Lífið

Suncity gefur út nýtt lag og stefnir út fyrir landsteinana

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
La Melo og Suncity sameina krafta sína í popplaginu Adios.
La Melo og Suncity sameina krafta sína í popplaginu Adios. Iceland Sync Management

Tónlistar- og baráttukonan Sólborg Guðbrandsdóttir gefur á miðnætti út nýtt lag undir listamannsnafni sínu Suncity. Adios er annað lagið sem hún gefur út á ferlinum og var það frumflutt í Brennslunni í dag.

Í laginu Adios fékk hún með sér í lið kúbverska tónlistarmanninn La Melo, sem búsettur er á Íslandi. Lagið má heyra í spilaranum hér neðar í fréttinni.

„Lagið er bæði á ensku og spænsku og er áminning um það að hlusta á gjörðir fólks en ekki einungis fögru orðin þeirra. Ég held að flestir tengi við það að verða fyrir vonbrigðum með fólk sem lofar öllu fögru en stendur svo ekki við það. Við eigum öll betra skilið en það,“ segir söngkonan um lagið.

Sólborg, eða Suncity, kýs að syngja á ensku þar sem draumurinn er að fara með tónlistina út fyrir landsteinana og er stefnan sett þangað. Hún er á fullu í stúdíóinu þessa dagana að taka upp og búa til sína fyrstu stuttskífu (EP).

„Þetta lag er búið að bíða lengi eftir því að líta dagsins ljós, en ég er búin að liggja á því í um það bil eitt ár. Eftir að La Melo samþykkti að hoppa inn á lagið fannst mér það vera tilbúið til útgáfu. Þetta lag er eftir frábæru lagahöfundana Klöru Elias, Ölmu Guðmundsdóttur, Aaron Max Zuckerman & Maikel Medina Aldama. Aaron Max Zuckerman og Jóhannes Ágúst Sigurjónsson sáu svo um að pródúsera lagið. Það er þvílíkur heiður að fá að flytja lag eftir svona hæfileikaríka lagahöfunda. Falleg rödd La Melo var einmitt það sem lagið þurfti og gaf því þetta „latin feel“ sem fær mann til þess að dansa og dilla sér.“

Suncity stefnir á að fara með tónlist sína erlendis.Iceland Sync Management

Sólborg var gestur í Brennslunni á FM957 í dag og frumflutti þar lagið Adios. Í kjölfarið fór var hún sett í yfirheyrslu og má heyra þetta allt saman í spilaranum hér fyrir neðan. Þar kom meðal annars fram að hún þolir ekki Steve Carell í þáttunum The Office og finnst Rúrik Gíslason fallegasti maður á Íslandi. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×