Innlent

Nýjar reglur á landa­mærum taka gildi á mið­nætti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist fara að tillögum sóttvarnalæknis með nýrri reglugerð.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist fara að tillögum sóttvarnalæknis með nýrri reglugerð. vísir/vilhelm

Skýrari kröfur verða gerðar um skilyrði fyrir heimasóttkví varðandi húsnæði og umgengnisreglur. Þeir sem ekki geta verið í heimasóttkví sem uppfyllir sett skilyrði þurfa að fara í sóttvarnahús. Ekkert gjald verður tekið fyrir dvölina og fólki tryggð útivera. Ekki er gerður greinarmunur á því frá hvaða löndum fólk kemur. 

Þetta er meðal efnis nýrrar reglugerðar heilbrigðisráðherra sem birt var á vef ráðuneytisins síðdegis og tekur gildi á miðnætti. Ráðherra segir tillöguna að öllu leyti byggjast á tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. 

Þórólfur skilaði minnisblaði sínu til ráðherra í gær og innan við sólarhring síðar eru tilögur hans komnar í reglugerð. Hann sagði á upplýsingafundi í dag að tillögur hans væru þó ekki jafnáhrifaríkar og þær sem skikkuðu fólk frá hááhættusvæðum í sóttvarnahús.

Helstu reglur um sóttkví og sýnatöku á landamærum

Sömu reglur gilda um alla farþega, óháð því hvaðan þeir koma: Sóttvarnaaðgerðir á landamærum taka jafnt til allra, óháð því hvort þeir koma frá löndum sem skilgreind eru sem áhættusvæði eða ekki.

Sýnataka og sóttkví: Öllum sem koma til landsins verður sem fyrr skylt að fara í sýnatöku á landamærunum, fimm daga sóttkví og aðra sýnatöku við lok hennar (sjá þó nánar um börn hér að neðan og sýnatöku hjá einstaklingum með vottorð). Fólki er heimilt að vera í heimasóttkví að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þeir sem hafa ekki tök á að vera í heimasóttkví og/eða kjósa frekar að dvelja í sóttvarnahúsi eiga kost á því og er dvölin þar viðkomandi að kostnaðarlausu.

Kröfur til heimasóttkvíar: Þeir sem eru í sóttkví þurfa að vera í húsnæði sem uppfyllir skilyrði og umgengnisreglur samkvæmt nýjum leiðbeiningum sóttvarnalæknis. Í því felst að einstaklingur skuli vera einn á dvalarstað en ef fleiri dveljast þar þurfa þeir að sæta öllum sömu skilyrðum sóttkvíar. Þeir sem ekki geta dvalið í heimasóttkví sem uppfyllir skilyrði sóttvarnalæknis þurfa að dvelja í sóttvarnahúsi.

Brot á heimasóttkví: Gerist einstaklingur uppvís að því að brjóta heimasóttkví getur sóttvarnalæknir ákveðið að hann skuli ljúka sóttkví í sóttvarnahúsi.

Sóttvarnahús: Þeir sem ekki hafa tök á að vera í heimasóttkví og/eða kjósa frekar að dvelja í sóttvarnahúsi eiga kost á því. Dvölin er viðkomandi að kostnaðarlausu. Þeim sem dvelja í sóttvarnahúsi verður gert kleift að njóta útiveru og sérstakt tillit verður tekið til barna, s.s. varðandi útiveru og annan aðbúnað.

Sýnataka og sóttkví barna: Börn fædd 2005 eða síðar fara í sýnatöku á landamærunum. Ferðist barn með einstaklingi sem skylt er að sæta sóttkví dvelur barnið þar með honum og losnar úr sóttkví ef síðara sýni úr samferðamanni er neikvætt. Ef samferðamaðurinn er undanþeginn sóttkví er barnið það sömuleiðis. Barn sem ferðast eitt þarf ekki að fara í sóttkví.

Sýnataka hjá einstaklingum með vottorð: Krafa um sýnatöku hjá einstaklingum með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu er sett vegna vísbendinga um að þessir einstaklingar geti borið smit. Þeir þurfa ekki að sæta sóttkví en skulu bíða niðurstöðu úr sýnatöku á dvalarstað. Krafan er tímabundin og verður endurskoðuð fyrir 1. maí.

Aukið eftirlit og hærri sektir: Sóttvarnalæknir leggur til að eftirlit með einstaklingum í heimasóttkví verði aukið í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og jafnframt að sektir fyrir brot á sóttkví verði hækkuð til muna. Heilbrigðisráðherra hefur komið tillögum sóttvarnalæknis varðandi þetta á framfæri við ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra.

Vilja lágmarka líkur á smiti inn í landið

Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að meginmarkmiðið með aðgerðunum sé að lágmarka eins og kostur er líkur á því að smit berist inn í landið, með þeim aðgerðum sem sóttvarnalög heimila. Með reglugerðinni er felld úr gildi reglugerð nr. 355/2021 sem tók gildi 1. apríl og þar með ákvæði um skyldu einstaklinga af hááhættusvæðum til að dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi sem héraðsdómur úrskurðaði að ekki væri fullnægjandi lagastoð fyrir.

Sóttvarnalæknir segir í minnisblaði til heilbrigðisráðherra að ófullnægjandi fylgni við reglur um heimasóttkví þeirra sem koma til landsins sé ein helsta ógn við núverandi smitvarnir á landamærum. Veruleg hætta sé á að smit berist inn í landið nema gripið verði til frekari aðgerða á landamærunum. 

Hann bendir á að umfang bólusetningar sé ekki orðið nægilegt hér á landi til að koma í veg fyrir útbreiddan faraldur, víðast erlendis sé faraldurinn í mikilli útbreiðslu sem auki hættuna á að smit berist til landsins. Þá séu ný og meira smitandi afbrigði veirunnar orðin allsráðandi í nálægum löndum sem virðist valda alvarlegri veikindum í yngri aldurshópum, auk þess sem óvissa ríki um hvort þau geti valdið endursýkingum og hve mikla vernd þau bóluefni sem nú eru í notkun veiti gegn þeim.

Að neðan má sjá Reglugerð ráðuneytisins og minnisblað sóttvarnalæknis.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Svandís útilokar ekki breytingu á lögum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur kynnt nýja reglugerð um sóttvarnaráðstafanir á landamærum sem tekur gildi á miðnætti. Nú er ekki skylda að fara á sóttkvíarhótel ef maður getur uppfyllt nauðsynleg skilyrði heimasóttkvíar, svo sem um að enginn annar sé til dvalar í sama húsnæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×