Viðskipti erlent

Ali­baba sektað um 350 milljarða

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Alibaba er eitt umsvifamesta netverslunarfyrirtæki heims.
Alibaba er eitt umsvifamesta netverslunarfyrirtæki heims. Fang Dongxu/VCG via Getty Images

Kínversk stjórnvöld hafa sektað Alibaba, eitt stærsta netverslunarfyrirtæki heims, um 2,75 milljarða Bandaríkjadala fyrir brot á einokunarlögum. Eftirlitsaðilar í landinu segja fyrirtækið hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína um árabil.

Fyrirtækið, sem er umsvifamikið í Kína, kom í veg fyrir að notendur sem vildu nýta sér þjónustu Alibaba til að selja varning seldu hjá öðrum aðilum. Fyrirtækið hefur gengist við brotunum og samþykkt að greiða sektina, sem samsvarar yfir 351 milljarði króna.

Samkvæmt breska ríkisútvarpinu samsvarar sektin um fjórum prósentum af tekjum fyrirtækisins árið 2019.

Í síðasta mánuði voru tólf kínversk fyrirtæki sektuð vegna brota á einokunarlögum. Sektin sem Alibaba hefur nú fengið er þó stærsta einokunarmálið í Kína til þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×