„Útivera verður tryggð eftir því sem unnt er á hverjum stað fyrir sig og án þess að skerða sóttvarnir og þar með skerða öryggi gesta. Þetta er í samræmi við tilmæli eða reglur sóttvarnlæknis,“ segir María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.
Hún segir nauðsynlegt að fólk muni að gestir sóttkvíarhótelanna velji hvort þeir dvelji þar eður ei. Nú sé ekki skylda fyrir komufarþega til að dvelja á sóttkvíarhóteli hafi þeir annan samastað og viti þeir því fyrirfram að útivist sé takmörkuð.
Þegar er vinna hafin við að útfæra reglurnar en María segir að útfæra þurfi þær á hverjum stað fyrir sig. Þá þurfi einnig að útfæra þær eftir aðstæðum.
„Við sjáum þetta þannig fyrir okkur að gestir hafa samband við starfsmenn hótelsins og láta vita að þeir óski eftir að fara út og þá verður reynt að verða við því. Það verður í rauninni að útfæra þetta í hverju tilviki fyrir sig vegna þess að ef það er að koma hópur nýrra gesta inn á hótelið er í raun ekki hægt að labba í gegn um sama svæði án þess að skerða sóttvarnir,“ segir María.
Lögð verður sérstök áhersla á að mæta útivistarþörf barna og munu þau því hafa forgang.
„Það er verið að útfæra þetta nú þegar, að heimila fólki útivist miðað við aðstæður og án þess að skerða sóttvarnir. Það er auðvitað hlutverk sóttkvíarhúss og þess vegna erum við með sóttvarnahótel að verja heilsu fólks með sóttvörnum,“ segir María.