Erlent

Lýsa blóð­baði þegar stjórna­herinn skaut sprengjum á mót­mælendur

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglutrukkur lokað vegi til að stöðva för mótmælenda í Yangon á föstudag. Stjórnarherinn er sagður hafa slátrað tugum mótmælenda í nágrenni borgarinnar á föstudag.
Lögreglutrukkur lokað vegi til að stöðva för mótmælenda í Yangon á föstudag. Stjórnarherinn er sagður hafa slátrað tugum mótmælenda í nágrenni borgarinnar á föstudag. Vísir/AP

Fleiri en áttatíu manns féllu þegar öryggissveitir herforingjastjórnarinnar í Búrma skutu sprengjum á mótmælendur nærri Yangon á föstudag. Nákvæm tala látinna liggur ekki fyrir þar sem herinn safnaði líkunum saman í herstöð og girtu svæðið af.

Eftirlitshópurinn Hjálparsamtök pólitískra fanga (AAPP) segir að 82 hafi látist í mótmælum gegn valdaráni hersins í bænum Bago, um 90 kílómetra norðaustur af Yangon. Skothríð hersins hófst fyrir dögun á föstudag og stóð fram á síðdegi, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir innlendri fréttaveitu í Búrma. Margir íbúar Bago eru sagðir hafa flúið.

„Þetta er eins og þjóðarmorð. Þeir skjóta á hvern skugga,“ hefur Myanmar Now-fréttaveitan eftir Ye Htut sem hún segir skipuleggjanda mótmæla um blóðbaðið í Bago.

Samkvæmt tölum AAPP hafa 618 mótmælendur verið drepnir frá því að herinn rændi völdum 1. febrúar. Herinn hafnar þeim tölum. Hann hefur ekki tjáð sig um blóðbaðið í Bago.


Tengdar fréttir

Meira en 40 börn hafa látist í á­tökunum í Mjanmar

Minnst 43 börn hafa verið drepin af mjanmarska hernum frá 1. febrúar síðastliðnum, þegar herinn rændi völdum í landinu. Frá valdaráninu hafa stuðningsmenn lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar landsins og herinn tekist á og hundruð dáið í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×