Nú þegar tæpur mánuður er liðinn frá upphafi goss þykir ljóst að fyrirkomulagið gengur ekki til lengdar og hafa bæjaryfirvöld í Grindavík leitað lausna til að leysa björgunarsveitir af hólmi.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, segir margar hugmyndir þar að lútandi hafa verið settar fram. Efst á blaði er að ráða landverði til að vera göngufólki innan handar.
„Við höfum verið að horfa til úrræðisins sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á sem heitir „Hefjum störf“ og Vinnumálastofnun er með tengingu við það. Við sjáum fyrir okkur að hægt væri að ráða fólk á þessum forsendum, fólk sem hefur kannski misst vinnuna og kemur til dæmis úr ferðaþjónustu. Það er vant því að leiðbeina og hafa eftirlit með komufarþegum.“

Einnig er til skoðunar að ráða landverði til að manna stöður. Þá stendur til að ráða framhalds- og háskólanema, sem ekki hafa fengið sumarvinnu, til að aðstoða við stígagerð og fleira.
„Líkt og við höfum sagt Umhverfisstofnun eru landverðirnir vanir þessum aðstæðum. Þeir gætu líka komið til aðstoðar. Þetta er eitthvað sem við þurfum að fá ráðleggingar um hvernig best er að velja til þessara starfa. […] Þannig væri hægt að mynda öflugt teymi sem tæki við af björgunarsveitunum sem myndu eftir sem áður vera þeir aðilar sem koma til aðstoðar ef eitthvað kemur upp á á gönguleiðinni. Aðrir gætu sinnt venjulegri gæslu og leiðbeint.“
Í hádeginu komu viðbragðsaðilar sér fyrir á gosslóðum en þá var opnað fyrir almenningi. Í dag berst gasmengun líklega yfir vestanverðan Reykjanesskaga, yfir svæðið frá Vogum og vestur að Höfnum. Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að svæðið sé ekki fyrir lítil börn, þau séu viðkvæm og nær jörðinni en hinir eldri og því útsettari fyrir skaðlegum lofttegundum. Svæðinu verður lokað klukkan níu í kvöld.