Enski boltinn

Sonur Solskjærs gerði grín að ummælum Mourinhos og sagðist alltaf fá að borða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær ásamt sonum sínum, Noah og Elijah.
Ole Gunnar Solskjær ásamt sonum sínum, Noah og Elijah. getty/TROND TANDBERG

Elsti sonur Ole Gunnars Solskjær, knattspyrnustjóra Manchester United, gerði góðlátleg grín að orðaskaki föðurs síns og Josés Mourinho, stjóra Tottenham, og sagðist ekki vera sveltur heima fyrir.

Solskjær var langt frá því að vera sáttur með Son Heung-min í aðdraganda mark Edinsons Cavani sem var dæmt af í leik Tottenham og United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. United vann leikinn, 1-3, og styrkti þar með stöðu sína í 2. sæti deildarinnar.

„Ef þetta væri sonur minn sem hefði legið svona lengi í grasinu og þurft hjálp frá liðsfélögum sínum við að standa upp þá fengi hann ekki að borða af því þetta var vandræðalegt,“ sagði Solskjær eftir leikinn.

Mourinho tók þessum ummælum Solskjærs heldur bókstaflega og sagði að Son væri heppinn að faðir hans væri betri manneskja en stjóri United.

Noah, eldri sonur Solskjær, henti gaman að þessum ummælum Mourinhos og sagðist ekki vera sveltur heima fyrir.

„Ég hló að þessu. Ég lofa því að ég fæ alltaf að borða,“ sagði Noah sem er samherji Brynjólfs Andersen Willumssonar hjá norska úrvalsdeildarliðinu Kristiansund.

„Líklega vildi Mourinho dreifa athyglinni frá tapinu. Þegar ég kom á æfingu í dag var ég spurður hvort ég hafi fengið að borða,“ sagði Noah léttur.

Næsti leikur United er gegn Granada á Old Trafford í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn. United vann fyrri leik liðanna á Spáni í síðustu viku með tveimur mörkum gegn engu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×