Erlent

Lögreglukonan sem skaut Wright ákærð fyrir manndráp

Samúel Karl Ólason skrifar
Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í kjölfar dauða Wright.
Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í kjölfar dauða Wright. AP/John Minchillo

Lögreglukonan sem skaut Daunte Wright til bana eftir að hann var stöðvaður fyrir umfarðalagabrot verður ákærð fyrir manndráp. Hin 48 ára gamla Kimberly A. Potter, sem hafði starfað hjá lögreglunni í Brooklyn Center í Minnesota, segist hafa skotið Wright fyrir mistök er hann reyndi að komast á brott.

Potter verður ákærður fyrir manndráp af annarri gráðu og gæti hún verið dæmd til allt að tíu ára fangelsisvistar, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Hún segist hafa ætlað að skjóta hann með rafbyssu en hún hafi fyrir mistök tekið skammbyssu sína upp.

Daunte Wright var tuttugu ára gamall svartur maður sem var stöðvaður á bíl sínum á sunnudaginn fyrir að vera á óskoðuðum bíl. Þá kom í ljós að búið var að gefa út handtökuskipun gegn Wright fyrir að hafa ekki mætti fyrir dómara og reyndi hann að komast undan þegar verið var að handtaka hann.

Myndefni úr vestismyndavél Potter sýnir að hún tók upp byssu sína og hótaði að gefa Wright rafstuð. Hún hleypti svo af skoti í þann mund sem Wright keyrði á brott og virtist hún hissa á því að hafa skotið hann.

Fjölskylda Wright segir ótækt að afsaka atvikið með því að um mistök hafi verið að ræða. Þetta sé enn eitt dæmið um það óréttlæti sem svartir Bandaríkjamenn verði fyrir frá réttarkerfi landsins. Wright hafi verið stöðvaður fyrir að vera á óskoðuðum bíl og hafi dáið fyrir vikið.

Tilkynnt var í gær að Potter væri hætt í lögreglunni og sömuleiðis sagði lögreglustjóri Tim Gannon af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×