Erlent

Fjöl­marg­ar skot­á­rás­ir í Band­a­ríkj­un­um á þess­u ári

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá kröfugöngu um lagabreytingar varðandi byssueign í Bandaríkjunum árið 2018.
Frá kröfugöngu um lagabreytingar varðandi byssueign í Bandaríkjunum árið 2018. AP/John Minchillo

Eftir tiltölulega rólegt ár í fyrra virðist mannskæðum skotárásum fara hratt fjölgandi í Bandaríkjunum. Átta eru látnir eftir skotárás í Indianapolis í nótt og fimm voru fluttir á sjúkrahús vegna skotsára.

Minnst einn hinna særðu er í alvarlegu ástandi.

Skothríðin fór fram í vöruhúsi FedEx og er árásarmaðurinn í Indianapolis er sagður hafa beint byssu sinni að sjálfum sér. Samkvæmt frétt New York Times er ekki búið að bera kennsl á manninn og liggur tilefni árásarinnar ekki fyrir. Lögreglan er að störfum og er búist við frekari upplýsingum í dag.

Hér má sjá stutt viðtal við mann sem var í vöruhúsin þegar árásin hófst.

Gun Violence Archive, sem AP fréttaveitan vitnar í, segir 147 skotárásir, þar sem minnst fjórir verða fyrir skoti, hafa átt sér stað í Bandaríkjunum það sem af sé þessu ári.

Meðal þeirra sem hafa verið mest áberandi var árásin í Atlanta í síðasta mánuði. Þá skaut ungur maður átta manns til bana, þar af sex konur af asískum uppruna, í árás á þrjár mismunandi nuddstofur.

Sjá einnig: Ákærður fyrir átta morð eftir „mjög slæman dag“

Viku síðar ruddist þungvopnaður maður inn í stórmarkað í Boulder í Colorado og skaut tíu manns til bana. Þar á meðal lögregluþjón sem var fyrstur til að mæta á vettvang. Tilefni árásarinnar liggur enn ekki fyrir.

Sjá einnig: „Ég var næstum drepinn fyrir að ná mér í gos og poka af kartöfluflögum“

Nokkrum dögum eftir það, í lok mars, skaut maður fjóra til bana og særði einn í skrifstofubyggingu í Kaliforníu. Meðal fórnarlamba hans var níu ára gamalt barn sem fannst í fangi móður sinnar. Hún var sú eina sem lifði árásina af.

Sá var svo særður í skotbardaga við lögreglu. Hann þekkti fórnarlömb sín persónulega og hefur lögreglan sagt að viðskiptadeildur hafi leitt til árásarinnar.

Sjá einnig: Barn meðal látinna í þriðju fjölda­­skot­á­­rásinni á innan við mánuði

Þá virðist sem að komiðo hafi verið í veg fyrir enn eina skotárás á flugvelli í San Antonio í Texas í gær. Árásarmaður var skotinn til bana eftir að hann hóf skothríð fyrir utan flugvöllinn.

Maðurinn hafði keyrt gegn einstefnu í átt að flugstöð flugvallarins og tók lögregluþjónn á móti honum þar fyrir utan. Þegar lögregluþjónninn kallaði á manninn, hóf hann skothríð að lögregluþjóninum og öðrum.

Maðurinn var skotinn til bana en einn borgari særðist og annar slasaðist við að flýja af vettvangi.

ABC News sögðu frá því í gær að maðurinn hefði verið vopnaður .45 kalibera skammbyssu og hefði verið með mikið af skotfærum í fórum sínum. Lögreglan telur að mörgum lífum hafi verið bjargað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×